Fótbolti

Dunga: Eigum að nota Neymar eins og Pele

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Dunga veit hvað hann vill
Dunga veit hvað hann vill vísir/getty
Dunga sem tók við brasilíska landsliðinu í fótbolta að loknu heimsmeistarakeppninni í fótbolta í Brasilíu í sumar segir að Brasilía ætti að nota Neymar, stærstu stjörnu sína, sem falska níu til að ná sem mestu út úr honum.

Neymar lék mest á vinstri kantinum fyrir Brasilíu í sumar á sama tíma og Fred olli vonbrigðum í fremstu víglínu.

Dunga er rétt nýtekinn við liðinu og strax búinn að finna lausn á þessu vandamáli. Það á að nota Neymar eins og Pele.

„Við þurfum að finna lausnir. Fótbolti er mjög fjölbreytilegur og leikmenn þurfa að vera hreyfanlegir,“ sagði Dunga.

„Að vera með fasta níu getur gengið í sumum keppnum en ekki öðrum. Þú þarft að vera hreyfanlegur og búa til pláss. Við eigum í vandræðum með suma leikmenn sem fara út þegar þeir eru 17 eða 18 ára gamlir og spila ekki fyrir sín lið.

„Þá hefur þú enga reynslu eða sjálfstraust og það bitnar á landsliðinu.

„Ef við trúum því öll að Neymar sé okkar besti leikmaður, þá ætti hann að leika í þessari stöðu og aðrir þurfa að aðlaga sig að honum.

„Ef við hefðum ekki leikið Pele í þeirri stöðu, hefði Pele ekki leikið vel. Pele verður að leika í sinni stöðu og aðrir þurfa að aðlaga sig,“ sagði Dunga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×