Erlent

Heldur dregur úr mannfalli á Gaza

Heimir Már Pétursson skrifar
Aðeins dró úr átökum á Gaza í dag eftir að Ísraelsstjórn lýsti einhliða yfir sjö tíma vopnahléi. Átta ára stúlka féll þó í sprengjuárás í Gazaborg  og 29 særðust manns særðust.

Ísraelsher er byrjaður að fækka hermönnum innan landamæra Gaza og telja sumir að þeir séu að undirbúa að hætta hernaðinum. Þeir lýstu einhliða yfir sjö tíma vopnahléi frá klukkan átta í morgun að íslenskum tíma, nema í borginni Rafha á suður gazaströnd. Talið er að með hernaði sínum þar vilji Ísraelsmenn reyna að gera hamasliðum erfiðara fyrir með að halda við vopnabirgðum sínum.

En aðeins örfáum mínútum eftir að sjö tíma vopnahléð átti að hafa tekið gildi, féll sprengja á hús í Gazaborg, þar sem átta ára stúlka féll og 29 manns særðust.

Lögregla í Jerúsalem segir að Palestínumaður frá austurhluta borgarinnar hafi ekið skurðgröfu á vegfaranda í miðborginni. Vegfarandinn slasaðist illa og lést skömmu síðar. Eftir að hafa ekið á manninn var gröfunni ekið á mannlausan strætisvagn og honum velt. Lögregla sem kom á vettvang skaut manninn til bana. Þá slasaðist ísraelskur hermaður í skotárás í borginni í morgun.

Mikil þörf er á öllum nauðsynjum á Gaza, hvort sem það er matur eða lyf og læknisvörur. Þrátt fyrir átökin komust hjálpargögn inn á Gaza í gegnum Karem Shalom landamærastöðina í morgun.

Um 1.800 manns, meiirihlutinn óbreyttir borgarar hafa fallið á Gaza og rúmlega níu þúsund særst. Sextíu og sex Ísraelar, þar af þrír óbreyttir borgarar hafa fallið frá því átökin hófust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×