Erlent

Herinn þrengir að Donetsk

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðskilnaðarsinnar í Donetsk.
Aðskilnaðarsinnar í Donetsk. Vísir/AP
Stjórnarhermenn hafa náð tökum á vegatálma á útjaðri Donetsk í austurhluta Úkraínu, sem hefur verið í haldi aðskilnaðarsinna um mánaða skeið. Skriðdrekar stjórnarhersins hafa einnig sést í úthverfi borgarinnar, en herinn hefur sótt hart gegn aðskilnaðarsinnum að undanförnu.

AP fréttaveitan segir frá því að herinn hafi sótt að borgunum Donetsk og Luhansk, en það eru höfuðvígi aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Síðustu vikur hefur stórskotalið hersins skotið á aðskilnaðarsinna í Donetsk og er talið að um 200 þúsund af íbúum borgarinnar, sem í heild eru um ein milljón, hafi flúið borgina. Flugvöllurinn er lokaður en lestir og strætisvagnar ganga enn.

Góðgerðarsamtökin Human Rights Watch segja borgara á svæðinu hafa fundið mikið fyrir átökunum í gegnum síðustu misseri. Þó hafi aðskilnaðarsinnar gert ástandið verra núna með því að ráðast gegn læknum og hjálparstarfsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×