Erlent

Kosningaþátttakan aldrei minni

Atli Ísleifsson skrifar
Martin Schultz var endurkjörinn forseti Evrópuþingsins fyrr í sumar.
Martin Schultz var endurkjörinn forseti Evrópuþingsins fyrr í sumar. Vísir/AFP
Þátttaka í kosningunum til Evrópuþingsins hefur aldrei verið minni en í kosningunum í maí síðastliðinn.

Evrópuþingið birti endanlegar tölur um þátttöku fyrr í dag þar sem fram kemur að þátttakan hafi verið 42,54 prósent, samanborið við 43,09 prósent árið 2009.

Belgar voru duglegastir að kjósa, en tæplega 90 prósent landsmanna skiluðu sér á kjörstað. Lakasta kosningaþátttakan var hins vegar í Slóvakíu þar sem einungis um 13 prósent Slóvaka kusu.

Derek Beach, lektor í stjórnmálafræði við Háskólann í Árósum segir í viðtali við danska ríkisútvarpið, að ýmsar skýringar séu á slakri kosningaþátttöku. Hann nefnir sérstaklega að í kjölfar fjármálakreppunnar hafi traust almennings til stjórnmálamanna og Evrópusambandsins almennt minnkað í vesturhluta álfunnar. Þá séu margir kjósendur í austurhluta álfunnar sem viti ekki hvað Evrópuþingið gerir eða hvaða hlutverki það gegni. Slíkt skili sér í slakri kosningaþátttöku.

Kosningaþátttaka á Norðurlöndum jókst bæði í Svíþjóð og Finnlandi samanborið við síðustu kosningar. Þátttakan var 56 prósent í Danmörku, 51 prósent í Svíþjóð og 41 prósent í Finnlandi.

Fyrst var kosið til Evrópuþingsins árið 1979.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×