Fótbolti

Elísabet: Þetta er alveg fáránlegt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad í Svíþjóð.
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad í Svíþjóð. vísir/hag
Eins og kom fram í morgun hafa 40 af bestu knattspyrnukonum heims sent FIFA andmælabréf og hótað lögsókn vegna ákvörðun sambandsins að spila alla leiki HM 2015 í Kanada á gervigrasi.

Faye White, fyrrverandi fyrirliði enska kvennalandsliðsins, er í viðtali á BBC í morgun þar sem hún segir þetta óboðlegt og spyr sig hvort verið sé að nota konur sem tilraunadýr.

„Mér finnst þetta alveg fáránlegt,“ segir ElísabetGunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni, við Vísi um málið.

„Það er vitað mál að stelpur eru veikari í hnjánum en strákar og tíðni hnémeiðsla töluvert hærri hjá þeim. Margar rannsóknir sýna að stór hluti þeirra meiðsla hafa átt sér stað á gervigrasi.“

„Bara í ljósi þess finnst mér þetta virðingarleysi. En svo yrði þetta aldrei gert á HM karla. Ég sé menn ekki einu sinni fyrir sér velta upp þeirri spurningu hvort eigi að spila á gervigrasi á HM karla,“ segir hún.

Leikir í bestum deildum Evrópu segir Elísabet að fari fram að stærstum hluta á náttúrlegu grasi, það sé helst sænska deildin þar sem notast er að hluta við gervigras.

„Í mörgum löndum er ekki einn leikur spilaður á gervigrasi þannig á HM ertu að bjóða upp á aðstæður sem leikmenn þekkja ekki og því hlýtur meiðslatíðnin að aukast,“ segir Elísabet en Abby Wambach, ein af stjörnum bandaríska landsliðsins, er á meðal þeirra sem skrifaði undir andmælabréfið.

„Hún hefur slasast alvarlega á sínum ferli þannig ég skil þetta mjög vel. Hvað ef Ísland kemst á HM? Hvað með leikmann eins og GuðnýjuBjörkÓðinsdóttur sem hefur slitið krossband fjórum sinnum? Það yrði engin smá ákvörðun fyrir hana að ákveða hvort hún ætti að fara, segir Elísabet og ítrekar: „Mér finnst þetta gjörsamlega fáránlegt!“

Nánar verður rætt við Elísabet í Fréttablaðinu á morgun um bikarúrslitaleik Kristianstad gegn Linköping sem fram fer annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×