Innlent

Hanna Birna krafin um skýrari svör

Randver Kári Randversson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Umboðsmaður Alþingis hefur ritað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, bréf í framhaldi af svari ráðherrans 1. ágúst sl. við bréfi umboðsmanns frá 30. júlí sl. Í bréfinu er óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum um samskipti innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Umboðsmaður óskar eftir svari við bréfinu eigi síðar en 15. ágúst. Þá hefur umboðsmaður einnig ritað forsætisráðherra bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um það hvort ríkisstjórnin hafi samþykkt siðareglur fyrir ráðherra.

Innanríkisráðherra krafinn um frekari svör

Á vefsíðu umboðsmanns Alþingis kemur fram að bréfið er skrifað í því skyni að afla frekari upplýsinga um málið áður en tekin verður ákvörðun um hvort tilefni sé til þess að taka það til formlegrar athugunar hjá umboðmanni.

Í bréfinu óskað eftir því að upplýst verði hvenær þeir fundir, sem vísað er til í svari Hönnu Birnu frá 1. ágúst sl., milli innanríkisráðherra og lögreglustjóra fóru fram.

Þá er óskað eftir eftir upplýsingum um hvaða málefni eða viðfangsefni voru til umfjöllunar á þessum fundum og hver boðaði lögreglustjóra til fundanna af hálfu ráðuneytisins eða ráðherra. Þá er ítrekuð ósk um að umboðsmanni verði afhent þau gögn sem til eru um þessa fundi, gögn sem lögð voru fram eða stuðst við á þessum fundum.

Óskað er eftir því að umboðsmanni verði afhent afrit af þeim gagna- og rannsóknarbeiðnum sem beint var til innanríkisráðuneytisins eftir að rannsókn lögreglu í lekamálinu  hófst í febrúar. Jafnframt er óskað eftir að upplýst verði hvenær einstökum beiðnum var svarað af hálfu ráðuneytisins og umbeðin gögn látin í té.

Umboðsmaður óskar einnig eftir því að hann verði upplýstur um hvað af samskiptum innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. fundir og símtöl, hafi verið skráð í málaskrá ráðuneytisins í samræmi við reglur þar að lútandi. Ef það hafi ekki verið gert er óskað eftir að upplýst verði um ástæður þess.

Að síðustu óskar umboðsmaður eftir að fá afhent afrit af heildarskrá innanríkisráðuneytisins um símtöl og fundi hjá ráðuneytinu á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí 2014. 

Óskar einnig eftir upplýsingum frá forsætisráðherra

Umboðsmaður Alþingis hefur einnig ritað Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, bréf þar sem óskað er eftir því að umboðsmaður verði upplýstur um hvort ríkisstjórnin hafi samþykkt siðareglur fyrir ráðherra. Hafi ríkisstjórnin samþykkt slíkar reglur er óskað eftir afriti af þeim.

Hafi slíkt ekki verið gert óskar umboðsmaður eftir afstöðu forsætisráðherra til þess hvort siðareglur ráðherra sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti árið 2011 gildi um störf núverandi ríkisstjórnar. Jafnframt er óskað eftir því að umboðsmanni verði tilkynnt um það sérstaklega ef ríkisstjórnin samþykki slíkar reglur.

Umboðsmaður óskar þess að svar við bréfinu berist fyrir 15. ágúst.


Tengdar fréttir

Tvísýn staða Hönnu Birnu

Skiptar skoðanir eru um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þingmaður flokksins segir að staða Hönnu Birnu sé mjög veik.

Hanna svarar í dag

Innanríkisráðherra veitir umboðsmanni Alþingis upplýsingar um meint afskipti af rannsókn Lekamálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×