Erlent

Fundu tilbúna sprengju í húsi í Þelamörk

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki er langt síðan norska ríkisstjórnin og lögreglan varaði við að hryðjuverkaógn steðjaði að landinu.
Ekki er langt síðan norska ríkisstjórnin og lögreglan varaði við að hryðjuverkaógn steðjaði að landinu. Vísir/AFP
Norska lögreglan hefur handtekið tvo menn í tengslum við sprengjufund í íbúðarhúsi í smábæ í Þelamörk. Íbúum í nágrenni hússins hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Spregjusveit Óslóarstörfum er nú að störfum í húsinu.

Á vef norsku ríkissjónvarpsins kemur fram að talsmaður lögreglu segir að sprengjan hafi fundist í íbúðarhúsi í Snurråsen í Siljan, vestur af höfuðborginni Ósló, um sjöleytið í kvöld.

„Lögregla hefur handtekið tvo. Nágrönnum hefur verið tilkynnt um málið og fluttir frá staðnum. Lögreglan í Þelamörk hefur einnig leitað aðstoðar sprengjusveitar Óslóarlögreglunnar,“ segir Vidar Aaltvedt í samtali við norska fjölmiðilinn TA.

Á vef Aftenposten segir að þeir handteknu séu par, 33 og 23 ára, og norskir ríkisborgarar. Bæði hafa þau komið við sögu lögreglu áður.



Á vef NRK segir að sprengjan hafi fundist þegar lögregla hugðist handtaka annan hinna grunuðu vegna annars máls. Um er að ræða heimalagaða sprengju, líklegast úr sprengiefninu TNT.

Lögregla segist ekki hafa sérstaka ástæðu til að gruna að parið hafi sérstök tengsl við hryðjuverkasamtök, en þau verða yfirheyrð í nótt.

Lögregla hyggst rannsaka íbúðarhúsið enn frekar í nótt og athuga hvort fleiri sprengjur leynist þar. Ekki er búist við að nágrannar geti snúið aftur til síns heima í nótt.

Um hundrað hús eru í hverfinu sem um ræðir í Siljan og hefur lögreglan girt af svæði um 200 metrum frá húsinu. Ekki er langt síðan norska ríkisstjórnin og lögreglan varaði við að hryðjuverkaógn steðjaði að landinu, en hún lækkaði viðbúnaðarstig aftur í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Íslendingar hugsi yfir hryðjuverkaógn

Íslendingar hafa hringt í sendiráðið í Ósló til að spyrja hvort óhætt sé að ferðast þangað. Íslenski sendiherrann hvetur fólk til þess að kynna sér upplýsingar frá norskum stjórnvöldum áður en það fer. Ekki sé ástæða til að vara við ferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×