Erlent

Koma upp vegartálmum vegna ebólufaraldurs

Atli Ísleifsson skrifar
Veiran hefur nú dregið rúmlega 900 til dauða frá áramótum.
Veiran hefur nú dregið rúmlega 900 til dauða frá áramótum. Vísir/AP
Líberískir hermenn hafa komið upp vegartálmum til að koma í veg fyrir að fólk frá svæðum í vesturhluta landsins þar sem ebólusmit hafa verið sérstaklega tíð, komi inn í höfuðborgina Monrovíu.

Aðgerðin kemur í kjölfar þess að forseti landsins lýsti yfir neyðarástandi vegna faraldursins, sem hefur orðið 930 manns að bana í Vestur-Afríku það sem af er ári. Forsetinn Ellen Johnson Sirleaf sagði ríkisstjórn landsins verða að grípa til róttækra aðgerða til að tryggja öryggi ríkisins og líf Líberíumanna.

Öryggissveitir í Sierra Leone hafa nú lokað af svæðum í austurhluta landsins þar sem fjölmargir hafa smitast.

Þetta er mannskæðasti ebólufaraldur mannkynssögunnar og munu sérfræðingar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og annarra stofnana funda á næstu tveimur dögum til að ræða hvernig skuli brugðist við ástandinu.

Ebólaveiran er einn banvænasti sjúkdómur sem þekkist þar sem hún dregur milli 50 og 60 prósent smitaðra til dauða. Ebólan kom upp í Gíneu í febrúar og hefur síðan þá náð að breiðast út til nærliggjandi landa – Líberíu og Sierra Leone og nú, Nígeríu en þar búa um 170 milljón manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×