Erlent

Öflugasti fellibylur í Kína í 41 ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Manila á Filippseyjum.
Frá Manila á Filippseyjum. VÍSIR/AFP
Átján manns hafa látist af völdum fellibyljarins Rammasun frá því að hann hóf innreið sína í suðurhluta Kína nú á föstudag. Áður hafði hann valdið mikill eyðileggingu á Filippseyjum og 94 eyjaskeggjar látið lífið.

Níu létust og fimm var saknað á föstudag eftir að fellibylurinn náði landi á Hainan-eyju og níu til viðbótar féllu í valinn í Guangxi-héraði.

Samkvæmt kínversku veðurstofunni er fellibylurinn sá öflugasti í landinu í rúmlega fjóra áratugi og hefur vindur farið yfir 60 metra á sekúndu í öflugustu hviðunum. Rafmagnslínur hafa fokið um koll og byggingar orðið illa úti.

Yfirvöld í suðurhluta landsins hafa aflýst fjölda flug-, lestar-  og rútuferða um helgina og hafa björgunarsveitir verið settar á hæsta viðbragðsstig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×