Erlent

Handsömuðu ísraelskan hermann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Áhugasamir Ísraelsmenn horfa yfir á átakasvæðið á Gasa
Áhugasamir Ísraelsmenn horfa yfir á átakasvæðið á Gasa VÍSIR/AFP
Hamas lýsti því yfir í kvöld að samtökin hefðu ísraelskan hermann í haldi sínu.

Þetta kom fram í máli talsmanns al-Qassam herdeildar Hamas sem sjónvarpað var í beinni útsendingu á Ma‘an fréttaveitunni.

Talsmaðurinn, Abu Ubaida, sagði í ræðu sinni að nafni hermannsins væri Shaul Aron og skráningarnúmer hans væri 6092065 en almannatengiliður ísraelska hersins vildi ekki staðfesta þessar fregnir þegar eftir því var leitað.

Tilkynnt var um handsömunina örfáum klukkustundum eftir að ísraelski herinn lýsti því yfir að Palestínumenn hefðu fellt 18 hermenn úr þeirra röðum frá því að landhernaður þeirra hófst á fimmtudag.

Í kjölfar fregnananna brustu út fagnaðalæti í Palestínu. Af því tilefni var skotið af rifflum og kveikt í flugeldum í borgum fyrir botni Miðjarðarhafs, til að mynda í Gasaborg og Betlehem.

Rúmlega 100 Palestínumenn féllu í átökum dagsins í dag, sem er sá blóðugasti síðan árið 2008. Þar af létust 66 í Shujaiyya hverfinu í austurhluta Gasaborgar. Talið er að um 6000 Palestínumenn sitji í ísraelskum fangelsum og er mörgum þeirra haldið án dóms og laga.

Hamas handsamaði ísraelskan hermann síðast árið 2006 og var hann þá í haldi samtakana í tæplega sex ár. Hermaðurinn, Gilad Shalit, var leystur úr haldi Hamas í skiptum fyrir 1000 Palestínska fanga árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×