Innlent

Sækir um stöðu bæjarstjóra 22 ára: „Þetta er spennandi tækifæri“

Bjarki Ármannsson skrifar
Ásgeir Elvar stökk á tækifærið og sótti um bæjarstjórastarfið.
Ásgeir Elvar stökk á tækifærið og sótti um bæjarstjórastarfið. Vísir/GVA/Aðsend
„Þó ég sé ekki að fara í þetta handviss um að fá starfið, þá er þetta samt sem áður fúlasta alvara,“ segir Ásgeir Elvar Garðarson, yngsti umsækjandinn í stöðu bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Ásgeir er nýútskrifaður viðskiptafræðingur úr Háskólanum í Reykjavík, verður 23 ára á þessu ári og starfar í dag sem rekstrarstjóri á bílaleigunni Geysi.

Efar að fólk vilji breyta til

„Þetta er skemmtilegt tækifæri,“ segir Ásgeir. „Ég sæki þarna um ekki á einhverjum pólitískum grunni, heldur miklu frekar faglegum grunni. Þeir vilja fá ópólitískan aðila. Það má deila um hversu ópólitískur er hægt að vera, en þessi staða er auglýst út frá þessum faglegu forsendum.“

Ásgeir viðurkennir að það er stórt stökk að fara úr því að stjórna um það bil fimmtíu manns hjá bílaleigunni í það að stjórna rúmlega fjórtán þúsund manna bæjarfélagi. En á hann von á því að hljóta stöðuna fram yfir fyrrverandi bæjarstjóra og framkvæmdastjóra?

„Menn tala alltaf um það í kosningum, en ég efa að menn færu að hleypa einhverjum svona ungu, nýju blóði í einhverja svona stjórnunarstöðu,“ segir hann. „Mönnum þykir ábyggilega þægilegra að sitja bara í gamla farinu og hafa einhverja gamla stjórnsýslubolta í þessu starfi í stað þess að breyta kannski til og fá nýtt blóð og þess háttar.“

Ungt fólk tilbúið í ábyrgðarstöður

Ásgeir segist hafa viljað stökkva á tækifærið, meðal annars til þess að vekja athygli á því að ekki sé allt ungt fólk áhugalaust um stjórnmál.

„Það er til eitthvað af ungu fólki sem er tilbúið að sinna ábyrgðarstöðum í til dæmis sveitarfélögum, ef ekki bara ríkisstjórninni. En það er kapítuli út af fyrir sig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×