Innlent

Vilja fá drenginn sinn heim

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Fésbókarsíða Terra Mítica
„Maður veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja að lýsa svona ofboðslega jákvæðum og björtum dreng. Hann hefur alltaf verið svoleiðis, bara frá því að hann var ungbarn. Maður finnur aldrei neinn sem gæti sagt um hann eitt einasta styggðaryrði,“ segir Harpa Bryndís Brynjarsdóttir, móðir Andra Freys Sveinssonar, átján ára pilts sem lét lífið í slysi í skemmtigarðinum Terra Mítica á Benidorm á Spáni síðastliðinn mánudag. Harpa er í viðtali í helgarblaði DV.

Andri Freyr var staddur á Spáni með föður sínum og stjúpbróður, systkinum og vinum. Þau höfðu skellt sér saman í dagsferð í skemmtigarðinn. Andri Freyr féll sem kunnugt er úr rússíbananum úr 15 metra hæð. Hann lést skömmu síðar. Málið er til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum á Spáni.

Andri Freyr Sveinsson.
Móðir Andra Freys, ættingjar og vinir hér heima bíða nú eftir að fá lík hans heim til Íslands. „Við viljum fá drenginn okkar heim,“ segir Harpa.

Andri Freyr bjó hjá móður sinni og systkinum í Stekkjarseli í Breiðholtinu í Reykjavík. Móðir hans segir hann hafa verið afar metnaðarfullan og hafi stefnt langt í tölvunarfræði. Hann hafi alltaf verið vinum sínum og fjölskyldu innan handar þegar tölvumál hafi verið annars vegar.

Harpa segir í viðtalinu rangt að fjölskyldan hafi tekið nokkra ákvörðun varðandi skaðabætur líkt og spænskir fjölmiðlar hafa fjallað um. Segir hún sérstaklega mikið um rangan fréttaflutning í spænskum miðlum. Hið rétta sé að faðir Andra hafi þurft að undirrita skjöl tengd flutningi Andra heim. Annað hafi ekki verið rætt.


Tengdar fréttir

Maðurinn sem lést á Benidorm íslenskur

Íslendingurinn er sagður hafa kastast úr rússíbana í skemmtigarðinum Terra Mitica. Rússíbaninn kallast Inferno og fer hann á allt að 96 kílómetra hraða á klukkustund. Hann er 25 metra hár og snýst í 360 gráður á 60 kílómetra hraða. Talið er að öryggisbeltið sem notað var hafi verið gallað og ekki virkað sem skyldi.

Ekki um mannleg mistök að ræða

Framkvæmdastjóri Terra Mítica útilokar þann möguleika að banaslysið sem átti sér stað þar á mánudag hafi orsakast af mannlegum mistökum.

Nafn piltsins sem lést

Pilturinn sem lét lífið af slysförum í skemmtigarði á Benidorm á mánudaginn hét Andri Freyr Sveinsson. Hann var átján ára og búsettur í Stekkjarseli 7 í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×