Erlent

Maðurinn sem lést á Benidorm íslenskur

Skemmtigarðurinn Terra Mitica á Benedorm.
Skemmtigarðurinn Terra Mitica á Benedorm.
Utanríkisráðuneytið hefur staðfest að ungi maðurinn sem lést í skemmtigarðinum Terra Mitica á Benidorm síðdegis í dag sé íslenskur. Pilturinn var í fríi með fjölskyldu sinni.

Íslendingurinn, sem er átján ára, kastaðist úr rússíbana í skemmtigarðinum Terra Mitica um þrjúleytið að íslenskum tíma. Rússíbaninn kallast Inferno og fer hann á allt að 96 kílómetra hraða á klukkustund. Hann er 25 metra hár og snýst í 360 gráður á 60 kílómetra hraða. Talið er að öryggisbeltið sem notað var hafi verið gallað og ekki virkað sem skyldi.

Norski miðillinn TV2 hefur eftir norskum gestum garðsins að hann sé vel farinn að láta sjá. Skemmtigarðurinn er algengur áfangastaður Norrænna ferðamanna sem sækja í sólina á Benidorm. Að sögn norsku fastagesta garðsins, sem opnaður var árið 2000, er viðhaldi ábótavant og segjast þeir aldrei hafa séð hann í verra ástandi.

El Mundo greinir frá því að lögreglan rannsaki málið og hafi girt af svæðið um hverfis rússíbanann í kjölfar slyssins. Garðinum í heild sinni var þó ekki lokað en margir gestir kusu þó að yfirgefa hann.

Í yfirlýsingu frá garðinum kemur fram að rússíbaninn, líkt og öll önnur tæki í garðinum séu skoðuð reglulega af vottuðum þriðja aðila. Sömuleiðis yfirfari starfsfólks garðsins búnaðinn á hverjum degi.

Þetta komi fram í gögnum sem afhent hafi verið lögreglunni sem rannsaki málið. Í yfirlýsingunni segir að orsök slyssins séu ókunn. Starfsfólk garðsins muni sömuleiðis skoða í þaula hvað gerst hafi en öryggi hafi verið í fyrirrúmi þau fjórtán ár sem hann hefur verið opnaður. Þá er fjölskyldu piltsins sem lést vottuð samúð.

Borgarstjórinn í Benidorm hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Hana má sjá hér að neðan.

„Þetta er sorgardagur í dag fyrir borgina. Ég vil gera kunnugar mínar samúðarkveðjur til hins látna og munu borgaryfirvöld styðja aðstandendur í einu og öllu. Ég treysti því að rannsóknin muni leiða í ljós hvað fór úrskeiðis svo hægt verði að gera viðeigandi ráðstafanir og þannig að garðurinn komist aftur í rétt horf. Ég vil ítreka trú mína á garðinn og stuðning við hann sem hefur áunnið sér traust og góðan orðstír, til dæmis á alþjóðavettvangi,“ segir í yfirlýsingu borgarstjórans Agustín Navarro Alvado.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×