Innlent

Treyja Pele fór á 575 þúsund krónur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Við afhendinguna á Landspítalanum í dag.
Við afhendinguna á Landspítalanum í dag. Vísir/Daníel
Jóhannes Valgeir Reynisson og félagar hjá Bláa Naglanum afhentu Hópbílum áritaða treyju brasilísku knattspyrnustjörnunnar Pele við Landspítalann á Hringbraut síðdegis.

Hópbílar keyptu treyjuna, sem var sett á uppboð, á 575 þúsund krónur og mættu eðli málsins samkvæmt á rútu frá fyrirtækinu til að veita treyjunni viðtöku. Fengu þeir treyjuna innrammaða en peningurinn mun fara í sjóð sem ætlað er að safna í frekari fjármunum í landssöfnun vegna ristilkrabba í september.

Markmiðið með landsöfnuninni er að geta í janúar 2015 gefið þeim 4388 einstaklingum sem verða fimmtugir árið 2015, prufur sem mæla blóð í hægðum. Um fyrirbyggjandi aðgerð er að ræða og standa vonir til þess að hægt verði að gefa prufurnar í þrjú ár. Þannig megi vonandi sjá niðurstöður að þremur árum liðnum.

Jóhannes Valgeir segir í samtali við Vísi að ein manneskja deyi í viku hverri vegna ristilkrabba sem sé mjög lúmskur sjúkdómur. Forvarnaraðgerð sem þessi hafi hvergi annars staðar verið gerð í heiminum. Hvert ristilpróf kostar rúmlega 3000 krónur í apóteki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×