Innlent

Verðum að breyta löggjöf um notkun bílbelta

Atli Ísleifsson skrifar
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent íslenskum stjórnvöldum tvö rökstudd álit þar sem hún hvetur stjórnvöld til að gera nauðsynlegar úrbætur í samræmi við ákvæði EES-reglna um umferðaröryggi.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent íslenskum stjórnvöldum tvö rökstudd álit þar sem hún hvetur stjórnvöld til að gera nauðsynlegar úrbætur í samræmi við ákvæði EES-reglna um umferðaröryggi. Vísir/Gunnar
Ísland verður að breyta löggjöf sinni um notkun öryggisbelta í bílum. Þetta kemur fram í áliti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þar sem einnig kemur fram að bæta þarf tæknilegt eftirlit úti á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent tvö rökstudd álit til Íslands og þar sem hún hvetur stjórnvöld til að gera nauðsynlegar úrbætur í samræmi við ákvæði EES-reglna um umferðaröryggi.

Í fréttatilkynningu ESA segir að fyrra rökstudda álitið varði brot Íslands á að framfylgja tilteknum ákvæðum tilskipunar (91/671/EEC) um skyldu til að nota öryggisbelti í vélknúnum ökutækjum undir 3,5 tonnum  að hámarksþyngd. Í tilskipuninni séu ákvæði um hvenær barn megi sitja í framsæti og nota öryggisbelti ætlað fullorðnum. Segir að gildandi löggjöf á Íslandi uppfylli ekki öryggiskröfur tilskipunarinnar.

„Síðara rökstudda álitið varðar brot Íslands á að framfylgja ákvæðum tilskipunar 2000/30/EC um tæknilegt eftirlit með aksturshæfni vöruflutningabifreiða úti á vegum. Á Íslandi eru tæknilegar skoðanir bifreiða á vegum úti ekki framkvæmdar reglulega eins og krafist er í tilskipuninni. Þá er skyldu til að afhenda ökumönnum skoðunarskýrslu á stöðluðu formi ekki fullnægt. Á Íslandi eru eftirlitsmönnum á vegum heldur ekki tiltæk nauðsynleg gögn við tæknilegt eftirlit, þ.e. nýleg vottorð um aksturshæfni eða nýlegar tæknilegar eftirlitskýrslur.“

Í tilkynningunni segir að íslensk stjórnvöld hafi viðurkennt þá annmarka á innleiðingu og framkvæmd beggja tilskipananna sem ESA benti á í formlegu áminningarbréfi í febrúar 2014. „Þau hafa tilkynnt að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á innlendri löggjöf. ESA hefur þó ekki fengið upplýsingar til staðfestingar á slíkum breytingum frá íslenskum stjórnvöldum.

Útgáfa rökstudds álits er annað skrefið í formlegu samningsbrotamáli. Hafi viðkomandi ríki ekki gert viðeigandi ráðstafanir til þess að bregðast við rökstudda álitinu innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×