Innlent

Smálaxinn lætur sig vanta

Jakob Bjarnar skrifar
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar.
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar. vísir/gva
Verulegur uggur er að grípa um sig í laxveiðigeiranum en smálaxinn, sem er uppistaða laxveiðinnar, eða 84 prósent veiðinnar, er ekki að skila sér í árnar.

Vongleði veiðimanna fer nú óðum dvínandi en smálaxinn lætur ekki sjá sig í ám. Fréttastofa hefur heyrt sláandi veiðitölur úr þekktri smálaxaá á Vesturlandi. Nú fyrir skömmu voru þar komnir 60 laxar, en á sama tíma í fyrra, sem var reyndar mjög gott laxveiðiár, voru komnir 600 laxar á land. Viðskiptablaðið fjallar um þetta gæftaleysi í dag og ræða við Þorstein Þorsteinsson sem hefur haldið utan um veiðitölur fyrir Landsamband veiðifélaga í áratugi. Hann segir ástandið slæmt, einkum Vestanlands. En tölurnar tala sínu máli. Í viðmiðunarám höfðu 9. júlí veiðst tæplega þrjú þúsund laxar á móti um rúmlega fjögurþúsund og fjögur hundruð árið 2012 – sem var það versta síðan mælingar hófust.

Makríllinn líklegur sökudólgur

Með öðrum orðum stefnir hraðbyri í eitt versta laxveiðiár sem um getur. En, hvað veldur? Forstjóri hjá Veiðimálastofnun er Sigurður Guðjónsson.

„Það sem við vitum er að það gekk tiltölulega mikið út af seyðum í fyrravor. Hins vegar eru þau seyði að skila sér illa sem smálax núna. Og sá sem kemur er frekar rýr. Sem bendir til þess að hann hafi haft það fremur skítt í hafinu. Skýringin er þarna úti í sjónum.“

Þá horfa menn til makrílsins sem margfaldar lífmassa sinn árlega innan íslensku lögsögunnar. Hrollvekjandi kenning er uppi meðal þeirra sem eru að reka laxveiðiár: Er makríllinn að éta laxaseyði?

„Nú höfum við haft makríl hér í nokkur ár. Fengið bæði góð og slæm laxveiðiár. Þannig að það er svo sem engin augljós skýring. En, það er ekki líklegt að makríll éti laxaseyði að neinu gagni. Stærðarmunurinn er of lítill,“ segir Sigurður.

Skelfilegt ástand ekki bundið við Ísland

Að auki þarf makríllinn líka að vera tilbúinn fyrir utan ósana þegar seyðin ganga út og sú er ekki staðan. „Hins vegar er makríll í samkeppni um fæðu við laxaseyði, sérstaklega á fiskistað meðan laxinn er smár.“

Þannig er ekki ólíklegt að aukin makrílgengd hér við land hafi áhrif á ástand laxastofnsins hér við land.

Sigurður Guðjónsson bendir á að það hversu smálaxinn skilar sér illa nú þetta árið sé ekki bundið við Ísland heldur er þetta vandi einnig í Skotlandi og Noregi.

„Þannig að þetta er eitthvað stórt í gangi,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×