Innlent

Fann kettlinga í kassa í Heiðmörk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
„Maður fyrst og fremst trúir því ekki að nokkur maður geti gert eitthvað svona. Þetta er alveg skelfilegt,“ segir Helena Svava Jónsdóttir sem bjargaði lífi tveggja kettlingana á dögunum.

Helena var úti að ganga með hundana sína í Heiðmörk þegar hún rakst á kassa í vegkantinum. „Mér finnst eins og mér hafi hálfvegis verið stjórnað að fara þangað því ég fer yfirleitt ekki þessa leið,“ segir Helena. „Ég gekk bara beint að honum og opnaði hann – án þess að hugsa mig um. Það er eins og mér hafi verið ætlað að finna hann.“

Þegar hún kíkti í kassann sá hún kettlingana tvo, „titrandi hrædda með stóru augun sín,“ og fór Helena strax með þá heim til sín þar sem hún gaf þeim að borða og drekka.  Þrátt fyrir að vera skelkaðir voru þeir nokkuð vel á sig komnir og telur Helena það til marks um að þeir hafi ekki verið lengi í kassanum.

Kettlingarnir vekja viðbrögð

Hún smellti nokkrum myndum af kettlingunum og deildi sögu þeirra á Facebook-síðu sinni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Innan örfárra klukkustunda hafði þeim verið deilt mörg hundruð sinnum og fjöldinn allur af dýravinum setti sig í samband við Helenu og óskaði eftir því að fá að fóstra kettlingana tvo.

„Ég hef í raun ekki haft undan við að svara öllum sem vildu fá að kynnast kettlingunum betur. Það voru meira að segja margir sem treystu sér ekki til að taka kettlingana að sér en voru reiðbúnir að hýsa þá meðan þeir eru að komast á legg. Ég hefði sjálf viljað halda þeim eftir en ég gat það því miður ekki vegna hundanna minna,“ segir Helena en bætir við að hinir nýju eigendur muni hugsa vel um kettlingana. „Ég held að þeir hafi farið til mjög góðra eigenda. Stelpan sem hafði samband var alveg ofboðslega spennt að kynnast þeim og þegar hún fékk þá í hendurnar voru þeir knúsaðir og kysstir alla leið út í bíl,“ segir Helena kát.

Eftir að saga kettlingana fór á flug á netinu voru dýravinir ekki lengi að grafa upp hverjir fyrri eigendur þeirra þeirra voru og hafa þeir nú verið kærðir til Matvælastofnunnar fyrir vanrækslu. Þar verður tekin ákvörðun um hvort málið verið sent áfram til lögreglu.

Helena vonar að saga sín verði öðrum fordæmi. „Þegar maður er dýravinur þá getur maður hreinlega ekki látið svona kyrrt liggja.“

Færslu Helenu má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×