Erlent

Hitabylgja í kortunum í Skandinavíu

Atli Ísleifsson skrifar
Sænskur veðurfræðingur á fastlega von á að hitamet sumarsins verði slegið.
Sænskur veðurfræðingur á fastlega von á að hitamet sumarsins verði slegið. Vísir/AP
Hitastig í Skandinavíu mun hækka um helgina og gengur mikil hitabylgja yfir Svíþjóð, Danmörku og Noreg í næstu viku. Að sögn Piu Hultgren, sænsks veðurfræðings, munu hitamet sumarsins líklega falla.

Veðrið það sem af er viku hefur einkennst af regni og skýjafari, auk þess að víða hefur gengið á með þrumum og eldingum, fyrst og fremst í norðurhluta Svíþjóðar.

Frá og með morgundeginum fer hitastig stöðugt hækkandi og mun víða ná upp í 25 eða 30 gráður. Á vissum stöðum verður þó hætta á skúrum.

Hultgren segist í samtali við sænska ríkisútvarpið fastlega eiga von á að hitinn haldist allt fram í lok næstu viku og telur góðar líkur á að hitamet sumarsins í Svíþjóð verði slegið. Hitinn hefur hæst farið í 31,8 gráður í bænum Junsele í norðurhluta landsins það sem af er sumri.

Hitinn og þurrkar gætu þó haft för með sér hættu á skógareldum, sér í lagi í miðju landinu austanverðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×