Innlent

Skipið verður dregið til Hafnarfjarðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Dritvík á Snæfellsnesi.
Frá Dritvík á Snæfellsnesi. MYND/ANNA MARÍA
Áhöfn Valþórs NS-123 óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar á þriðja tímanum í dag eftir að leki kom upp í vélarrúmi skipsins.

Þrír menn voru um borð og kölluðu þeir eftir hjálp fjórtán mínútur yfir tvö en skipið var statt skammt undan Dritvík á Snæfellsnesi. Ingunn Sveinsdóttir frá Akranesi var komin að skipinu um tíu mínútum síðar og þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskipið Björg frá Hellissandi, sjóbjörgunarsveitir á Snæfellsnesi og varðskipið Þór voru einnig kölluð á vettvang.

Slökkviliðsmenn í Reykjavík voru einnig settir í viðbragðsstöðu með dælur ef á þyrfti að halda.Um klukkustund síðar var þyrlan komin að Valþóri og tekið var að flytja lensidælur um borð. Áhöfn skipsins er engin hætta búin, aðstæður til björgunarstarfa eru prýðilegar því veðrið er gott þrátt fyrir lítið skyggni.

Uppfært kl. 18:20:

Að sögn Landhelgisgæslunnar er um smávægilegan leka að ræða og hafa dælurnar vel undan. Skipið er vélarvana og rafmagnslaust en ekkert amar að skipsverjum. Varðskipið Þór er á leið að skipinu og verður það dregið til hafnar í Hafnarfirði.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×