Innlent

Skógræktarmenn gleðjast yfir miklum trjávexti

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumaður rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá hefur sjaldan eða aldrei séð ein mikinn vöxt í trjám eins og í sumar. Hann fer reglulega út með mælistikuna og mælir vöxtin. Á Mógilsá er fjölbreytt úrval af tegundum og eiga þær allar sameiginlegt að hafa vaxið mjög mikið það sem af er sumri.

„Hér er bara búið að vera langt sumar, það byrjaði snemma og það hefur verið mikil og jöfn úrkoma í allt sumar. Trjágróðrinum er alveg sama þó að það rigni, ólíkt okkur mönnunum sem vilja hafa sól alla daga,“ segir Aðalsteinn. Hann er því næst spurður hvort þetta sé ævintýranlegur vöxtur? „Já hann er góður hjá mörgum tegundum, sérstaklega hjá lauftrjátegundum í ár“.

Aðalsteinn segir mjög ánægjulegt að sjá þennan svakalega vöxt í gróðri á öllum stöðum. En hvað vill hann segja við það fólk sem finnst að gróðurinn sé að kæfa allt umhverfi og garða sína, á að klippa plönturnar eða ekki ?

„Það verður hver að ráða því sjálfur, ég get ekki gefið fólki ráð um hvernig það vill hafa hlutina en það er alveg sjálfsagt að grisja og leyfa einstaka trjám og runnum að njóta sín,“ segir hann og bætir við. „Við erum að upplifa meiri vöxt heldur en nokkrar spár gerðu ráð fyrir og með þessum mikla vexti fylgir mikil kolefnisbinding umfram það sem búið var að spá á landsvísu. Við erum að sjá það í okkar gögnum, sem eru að koma í hús þessi misserin að spárnar sem byggðar voru á trjávexti á árabilinu frá 1960 til aldamóta að hinn raunverulegi vöxtur skógarins er mun meiri heldur en menn gátu ráðið á þeim tölum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×