Erlent

Sarkozy stendur í ströngu

Jakob Bjarnar skrifar
Sarkozy getur kysst allar fyrirætlanir um forsetaframboð 2017 bless.
Sarkozy getur kysst allar fyrirætlanir um forsetaframboð 2017 bless. ap
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur verið ákærður fyrir spillingu. Sarkozy mætti fyrir dómara í gær eftir að hafa mátt sæta yfirheyrslum lögreglu sem stóðu í 15 klukkustundir.

Heimspressan öll fylgist grannt með gangi mála en þetta mun vera í fyrsta skipti sem fyrrum æðsti maður Frakklands er hafður í haldi lögreglu. Upphaflega var Sakozy sakaður um að hafa þegið fé í kosningasjóð sinn sína frá fyrrum leiðtoga Líbyu, sjálfum Gaddafi. Sarkozy stefndi á að bjóða sig fram til forseta árið 2017 en rannsóknin er talin hafa bundið enda á allar slíkar væntingar.

Nú beinist rannsókn að því hvort hinn 59 ára Sarkozy, sem var forseti frá árinu 2007 til 2012, hafi lofað dómaranum Azibert stöðu í Monaco í skiptum fyrir upplýsingar um rannsókn sem snéri að illa fengnu fé í kosningasjóð hans. Þá er einnig verið að rannsaka hvort Sarkozy hafi verið varaður við því að sími hans væri hleraður. Azibert hefur einnig verið yfirheyrður vegna málsins.

Forveri Sarkozy á forsetastóli, Jacques Chirac, hlaut skilorðsbundinn fangelsisdóm árið 2011, fundinn sekur um fjárdrátt en það var þegar hann var borgarstjóri í París og hann var aldrei hafður í haldi og yfirheyrður sem slíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×