Erlent

Gagnasöfnun NSA sögð stjórnarskárbrot

Randver Kári Randversson skrifar
Höfuðstöðvar NSA í Maryland.
Höfuðstöðvar NSA í Maryland. Vísir/AFP
Bandarískir eftirlitsaðilar hafa lýst yfir áhyggjum af gagnasöfnun þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, NSA, þar sem gengið sé lengra en heimilt er samkvæmt stjórnarskrá. Greint er frá þessu á vef Reuters.

Í skýrslu frá bandarískri eftirlitsnefnd kemur fram að þótt tölvunjósnir NSA um fjarskiptanotkun einstaklinga hafi gert stofnuninni kleift að safna gögnum sem varða þjóðaröryggi Bandaríkjanna með skilvirkum og fljótlegum hætti þá efast nefndin um að gagnasöfnunin standist bandarísku stjórnarskrána.

Nefndin telur að með því að safna og geyma í gagnagrunni upplýsingar um símtöl og tölvupósta landsmanna til erlendra ríkisborgara utan Bandaríkjanna sé hugsanlega gengið lengra en ákvæði stjórnarskrárinnar um persónufrelsi heimila.  

Í janúar benti eftirlitsnefndin á að gagnasöfnun NSA um símanotkun einstaklinga hefði takmarkaða þýðingu í baráttunni gegn hryðjuverkum og binda ætti endi á hana þar sem hún stæðist ekki lög. Bent var á að finna þyrfti betra jafnvægi í starfsemi stofnunarinnar milli borgaralegra réttinda fólks og öryggishagsmuna ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×