Erlent

Læknar þurftu að aflima konu eftir lýtaaðgerð í heimahúsi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Apryl Brown.
Apryl Brown.
Hárgreiðslukonan Apryl Brown frá Bandaríkjunum lenti í hættu þegar hún fór í lýtaaðgerð í heimahúsi. Málið gekk svo langt að læknar töldu sig ekki getað bjargað henni. Á endanum lifði hún ef, en læknar þurftu að aflima hana; taka af henni hendur og fætur. Allt vegna þess að hún lét sprauta sílikoni í rasskinnar sínar í heimahúsi.

Brown sagði frá málinu í gær, en málið á sér langan aðdraganda. Hún fór í fyrstu lýtaaðgerðina árið 2004 og árið 2010 var hún loksins búin að fá bót meina sinna, eftir að læknar töldu að hún myndi ekki hafa það af.

Viðskiptavinur bauð upp á aðgerð

Árið 2004 var Brown að klippa hár einnar konu sem sagðist bjóða upp á lýtaaðgerðir heima hjá sér. Brown sló til og sagðist vilja stækka á sér rasskinnarnar – eitthvað sem hún segist alltaf hafa viljað gera.

Hún hitti konuna tvisvar, sem sprautaði einhverju sem átti að vera sílikoni í rasskinnarnar hennar. Eftir annað skiptið segist hún hafa byrjað að efast um ákvörðun sína. „Ég heyrði rödd í höfðinu á mér sem spurði mig hvað í ósköpunum ég væri að gera. Ég var að láta sprauta óþekktu efni í rassinn á mér.“

27 skurðaðgerðir

Eftir því sem tíminn leið fór Brown að líða mjög illa og leitaði til lækna. Hendur hennar og fætur fóru að dökkna með tímanum og kom drep í útlimi hennar. Hún fékk sýkingu vegna sílikonsins og var hætt kominn. Læknar neyddust til að framkvæma alls tuttugu og sjö aðgerðir á henni.

Læknar þurftu að fjarlæga handleggi hennar og fætur, auk þess sem þeir þurftu að taka hluta af rasskinnum hennar.

Brown segir í samtali við fjölmiðla í Bandaríkjunum að hún hafi verið mjög upptekin af sársakanum sem hlaust af sýkingunni. „Ég hugsaði að ef ég myndi deyja, þá myndi ég allavega ekki finna lengur til. Ég hugsaði ekki um að ég myndi deyja frá börnunum mínum eða móður minni, ég hugsaði bara um sársaukann."

Ennþá vandamál í Bandaríkjunum

Brown vonast til þess að geta vakið aðra til umhugsunar um hættuna sem stafar af því að fara í lýtalækningar í heimahúsum, við slæmar aðstæður. Lýtalæknirinn Richard Glogau segir að hann fái til sín marga sjúklinga sem hafi farið í andlitslyftingar hjá fúskurum. Og hann segist þurfa að laga mistökin sem þeir gera.

Hann segir að fólk sé alltof opið fyrir því að láta sprauta óþekktum efnum í líkama sinn. Hægt er að kaupa sérstök fyllingarefni á netinu og segir Glogau að fólk viti oft ekkert hvað sé í þessum fyllingarefnum. Einnig segir hann marga sjúklinga hafa farið erlendis í lýtaaðgerðir og komi heim og vilji láta laga það sem gert var við þá í þeim aðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×