Innlent

Kanna hvort flokkar haldi skrár um stjórnmálaskoðanir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Persónuvernd kannar nú hvort stjórnmálaflokkar haldi lista yfir stjórnmálaskoðanir fólks. Athugun þessi mun beinast að stjórnmálaflokkum sem buðu fram í fjórum stærstu sveitarfélögum landsins síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði fólu VestNord lögmönnum að senda erindi til Persónuverndar þar sem farið var fram á athugun þessa. Svar frá stofnuninni barst í gær.

Í svarinu kemur fram að Persónuvernd hefur sent bréf til flokka sem buðu fram í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og á Akureyri. Stofnunin hefur óskað eftir upplýsingum um hvort, og eftir atvikum hvaða, upplýsingar væru skráðar hjá þeim um félagsmenn og um aðra en félagsmenn.

Tilefni erindis Dögunar var að umboðsmaður Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi óskaði eftir því við yfirkjörstjórn í bænum, fyrir kosningar, að fá afhent afrit meðmælendalista annarra flokka. Beiðnin var þó afturkölluð eftir mótmæli annarra flokka.

Nota átti meðmælendalistana til að strika þá af listum Sjálfstæðisflokksins yfir fólk sem haft yrði samband við í aðdraganda kosninganna.

Sigurður Líndal lagaprófessor sagði þá í samtali við Vísi að hann teldi það ekki ólöglegt að halda lista yfir stjórnmálaskoðanir fólks, enda hafi slíkt verið gert árum saman.

„Stjórnmálaskoðanir eru viðkvæmar persónuupplýsingar. Það að skrá niður stjórnmálaskoðanir fólks er ekki í samræmi við lög, nema viðkomandi samþykki það,“ segir Eyjólfur Ármannsson, lögmaður hjá VestNord.

„Við viljum láta kanna hvort þetta, vegna gruns sem upp kom í kosningabaráttunni og vegna fréttarinnar á Vísi. Ef búið er að safna upplýsingum um stjórnmálaskoðanir fólks árum saman, er það klárt brot á lögum.“

Í annarri grein laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru stjórnmálaskoðanir taldar sem viðkvæmar persónuupplýsingar.


Tengdar fréttir

Enginn flokkur hefur beðið um kjörskrárstofn

Stjórnmálaflokkar og stjórnmálasamtök hafa enn ekki óskað eftir því við forsætisráðuneytið að fá afrit af kjörskrárstofnum vegna komandi sveitarstjórnarkosninga eins og tíðkast hefur í áratugi.

Ósáttir við afhendingu gagna

Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi upplýsi um hvaða skrár flokkurinn hefur unnið um stjórnmálaskoðanir bæjarbúa, að mati forsvarsmanna framboðs Pírata í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×