Innlent

Meira matvælaöryggi í Evrópu en Ameríku

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Neytendasamtakanna segir tvískinnung ef leyfa eigi innflutning á hráu kjöti frá Bandaríkjunum en ekki Evrópu þar sem matvælaöryggi sé meira. Í fyrra voru flutt inn rúm 400  tonnn af svínakjöti, aðallega til beikongerðar,  en töluvert skortir á að fólk geti áttað sig á hvort um innlenda eða útlenda vöru er að ræða.

Mikil umræða hefur verið um innfluting á kjöti að undanförnu og hafa sumir fullyrt, þeirra á meðal þingflokksformaður Framsóknarflokksins, að innflutt kjöt gæti beinlínis reynst Íslendingum hættulegt heilsufarslega. En nú hefur verið upplýst að um 400 tonn af svínakjöti hafi verið flutt inn til landsins á síðasta ári, mest megnis til beikonframleiðslu en það er ekki alltaf hægt að sjá uppruna þess lands sem kjötið kemur frá.

En hvaða kröfur gera Neytendasamtökin í þessum efnum?

„Það er mjög einfalt;  upprunaland á allar matvörur,“ segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna. „Það er það sem neytendur vilja fá. Við viljum tryggja að neytendur geti valið á upplýstan hátt. Þá þurfa þeir ákveðnar upplýsingar. Eitt af því sem skiptir neytendur verulegu máli er hvaðan varan kemur,“ segir Jóhannes.

En því miður séu kjötiðnaðarstöðvar stundum að pakka í innfluttu kjöti í eigin umbúðir án þess að geta upprunans og neytendur taki slíkri vöru sem innlendri.

„Þannig að það er mjög mikilvægt að þarna komi alveg greinilega fram: Er þetta íslensk vara eða er þetta frá einhverju öðru landi og þá hverju? Vegna þess að það skiptir okkur neytendur líka máli, ef um er að ræða innflutta vöru, frá hvaða landi hún kemur. Neytendum er ekki sama um það heldur,“ segir Jóhannes.

Fyrir því geti bæði verið heilsufarslegar og jafnvel pólitískar ástæður sem skipta neytandann máli. Af því beikoni sem við á fréttastofunni skoðuðum í dag var upprunans stundum getið með smáu letri;  að varan væri frá Íslandi eða t.d. Þýskalandi. En sumar pakkningarnar voru með engar slíkar merkingar.

Nú er rætt um mögulegan innflutning á hráu kjöti frá Bandaríkjunum í tengslum við þreifingar Costco hér á landi, en í dag er innflutningur á hráu kjöti bannaður.

„En það verður að sjálfsögðu verulegur tvískinnungur ef við heimilum innflutning frá Bandaríkjunum á fersku kjöti en bönnum hann áfram frá Evrópu. Þá er ég nú hræddur um að það færi að hrikta í EES samningnum. Og plús það, að það er talið vera meira matvælaöryggi í Evrópu en í Ameríku,“ segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×