Innlent

Verndun friðlýstra svæða ber árangur

Samúel Karl Ólason skrifar
Ströndin á milli Arnarstapa og Hellna kemur ný á appelsínugula listann.
Ströndin á milli Arnarstapa og Hellna kemur ný á appelsínugula listann. Vísir/GVA
Umhverfisstofnun gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi. Á tveggja ára fresti er gefinn út svokallaður rauður listi sem byggður er á ástandsskýrslunni. Undanfarin ár hefur svæðum á rauða listanum fækkað en svæðum á appelsínugula listanum hefur aftur á móti fjölgað.

Á appelsínugula listanum eru svæði sem eru undir töluverðu álagi og fylgjast þarf vel með og bregðast við eftir atvikum.

Fækkun á rauða listanum er í tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar rekin til þess að verndaraðgerðir hafi borið árangur og svæði hafi færst af rauða listanum á þann appelsínugula.

Friðlýst svæði á Íslandi eru 113. Fimm svæði eru á rauða listanum og sextán á appelsínugula listanum.

Á rauða listanum nú eru Friðland að Fjallabaki, Geysir, Helgustaðanáma, Reykjanesfólkvangur og verndarsvæði Mývatns og Laxár.

Á þeim appelsínugula eru Dynjandi, Dyrhólaey, Eldborg í Bláfjöllum, Geitland, Grábrókargígar, Gullfoss, Háubakkar, Kringilsárrani, Laugarás, Rauðhólar, Skógafoss, Skútustaðagígar, Ströndin við Stapa og Hellna, Surtarbrandsgil og Teigarhorn.

Nú í sumar er gert ráð fyrir miklum framvkæmdum og verndarráðstöfunum. Með því er vonast til að Helgustaðanáma fari af rauðalistanum og að sex svæði falli út af þeim appelsínugula.

Það eru Dynjandi, Dyrhólaey, Gullfoss, Teigarhorn, Skútustaðagígar og Surtarbrandsgil.

Listana frá 2012 og 2010 má sjá hér.

 

Helstu breytingarnar frá því að listinn var síðast gefinn út er að Laugarás færist af rauða listanum yfir á þann appelsínugula.

„Þar hafa aðgerðir Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar hvað varðar stýringu, upprætingu framandi tegunda og fræðslu bætt stöðu mála umtalsvert.“

Dynjandi kemur inn á appelsínugula listann og ströndin vaið Stapa og Hellnar líka, en það svæði hefur aldrei verið á lista áður. Hveravellir falla af appelsínugula listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×