Innlent

Tjáir sig um dótturmissinn: „Hún er að gera okkur að betri manneskjum“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Guðrún Olga Gústafsdóttir var gestur Íslands í dag í gærkvöldi og ræddi um dóttur sína, Evu Lynn, sem lést aðeins fimm ára gömul eftir bílslys.

Guðrún útskýrði hvernig hún upplifði dótturmissinn og hvernig henni leið fyrstu mánuðina eftir að dóttir hennar lést. Hún sagðist hafa leitað í trúnna til að takast á við dótturmissinn.

Ennfremur segir hún að hún hugsi til daglega til dóttur sinnar, sem hún segir að hafi gert sig að betri manneskju. „Hún er að kenna okkur svo mikið. Þessi stórkostlegi einstaklingur sem kom inn í lífið okkar,“ segir hún og bætir síðar við: „Hún er að gera okkur að betri manneskjum. Við erum orðin auðmjúk.“ Guðrún segir að áður fyrr hafi hún getað orðið reið og rifið kjaft, en núna taki hún lífinu af æðruleysi.

Hræðilegt slys

Eva, dóttir Guðrúnar, var fimm ára gömul þegar hún lést. Faðir Evu, og fyrrum eiginmaður Guðrúnar, fór með hana í ferðalag á Suðurlandi ásamt sænskum vinahjónum hans. Guðrún lýsti þessu hræðilega slysi svo:

„Það var hræðilegt slys. Faðir hennar var ekki á staðnum, heldur sænska konan og börnin hennar. Hún hleypir dóttur minni út úr bílnum. Og leyfir henni að hlaupa og opna hliðið og hlaupa upp. En hún neitar að fara fram fyrir bílinn og segir bílstjóranum að fara og bíður við kantinn. En það gerist eitthvað, ég veit ekki hvað. Hvort hún hafi verið pirruð eða hvað. En næsta sem ég heyri er að hún keyrir og kíkir síðan í baksýnisspegilinn og þar liggur dóttir mín á götunni. Og konan hleypur að og þá er hún meðvitundarlaus. Hún tekur hana upp í bílinn. Hún var ekki með síma og er með tvö önnur börn. Hún keyrir frekar langan afleggjara með hana meðvitundalausa, á móti pabba Evu og manninum sínum.“

Guðrún lýsti því hvernig fyrrum eiginmaður hennar, sem er augnlæknir, hafi reynt endurlífgunartilraunir. Sjúkrabíll kom frá Hvolsvelli og þyrla kom frá Reykjavík, fjörutíu mínútum seinna.

Guðrún Olga hefur einnig snúið sér að ljósmyndun.Vísir/Stöð2
Fékk að heyra það sem enginn vill heyra

Guðrún lýsti því svo þegar hún fékk símtalið þar sem henni var tjáð að dóttir hennar hafði lent í slysi: „Þetta er eitthvað sem maður vill ekki heyra og ég blokkeraðist einhvernveginn. Mér var sagt að ég mætti ekki vera ein og ég var ein heima. Ég bjó þá við hliðina á Borgarspítalanum. Ég fer niðureftir þá er pabbi hennar á grúfu á gólfinu, gat ekki sagt neitt. Svo var mér sagt að ég þyrfti að hringja í bróður hennar og pabba minn og nánustu fjölskylduna. Þarna vorum við í svona tvo tíma og við vissum ekki neitt.“

Hún gerði sér ekki grein fyrir því hversu alvarleg meiðslin voru í fyrstu. 

„Það næsta sem ég man. Er að það kemur prestur og tveir læknar.“ Hún segist hafa gert sér grein fyrir að fréttirnar yrðu væntanlega slæmar: „Síðan fáum fréttirnar, að hún sé dáin.“

Ferlið sem fylgdi á eftir, var gífurlega erfitt að sögn Guðrúnar Olgu. „Þetta á bara ekki að vera hægt. Þetta á bara að vera bannað.“

Trúin og hestamennskan hjálpuðu

Guðrún sagðist hafa verið trúuð áður en Eva lést, en hún hafi afneitað trúnni í kjölfar fráfallsins. Fjórum mánuðum síðar fór hún í skíðaferð til Austurríkis og segir þá ferð hafa hjálpað sér að fá útrás. Hún sagðist hafa ákveðið að taka aftur upp trú sína í kjölfar ferðarinnar. Hún sagðist hafa gert samning við guð sinn: „Ég gat ekki lifað svona reið. Það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessu. Við fáum öll eitthvað hlutverk. Og um leið og ég fór að róa mig niður og hugsa minn gang, þá fóru hlutirnir að gerast, þá fór ég að fá allt upp í hendurnar á mér. Þá kemur þakklæti.“

Guðrún sagðist líka hafa fengið hjálp í gegnum hestamennskuna, hún hafi getað farið á hestbak að nóttu til þegar hún vildi það.

Guðrún þakkaði einnig kærasta sínum fyrir dyggan stuðning, en þau kynntust fyrir einu og hálfu ári síðan. „Þetta er maður með stærsta hjarta í heimi.“

Maður þarf eiginlega að byrja upp á nýtt

Eftir dótturmissinn sagðist Guðrún hafa sofið og lokað sig af í um eitt og hálft ár. „Maður þarf að byrja upp á nýtt. Maður er nakinn á sálinni.“ 

Hún sagði að henni hafi þótt best að draga gluggatjöldin fyrir og sofa. 

En erfitt hafi verið að vakna fyrst um sinn. „Fyrstu tvo mánuðina vaknaði ég og ældi í klósettið til hádegis. Þegar ég jarðaði hana var ég búin að missa niu kíló. Það er bara þetta að vakna og horfa...raunveruleikinn...hún er ekki þarna, þá tók bara klósettið við.“

Hún sagðist alltaf hafa verið hrædd um börnin sín. „Óttinn er farinn. Ég var ótrúlega óttaslegin; það mátti ekkert gerast fyrir börnin mín. Eftir þetta, eftir þennan þunga kross sem ég þarf að bera, þá er bara óttinn farinn, hann fór með henni og það sem kemur – auðvitað á ég eftir að lenda í fullt af áföllum – þetta er allt fyrirfram ákveðið. Ég er búin að missa mikið. Ég missti mömmu mína þegar hún var 48 ára, bestu vinkonu mína þegar hún var 28 ára og svo dóttur mína. Ég held að ég sé búin að fá fullt af taugaáföllum og hugsaði: Nú get ég ekki meir.“

Konan hefur ekki beðist afsökunar

Guðrún var spurð út í sænsku konuna sem keyrði á Evu. Guðrún sagði hana ekki hafa beðist afsökunar á þessu. „Ég var rosalega reið og kallaði hana morðingja. Og að geta ekki komið til mín, tekið utan um mig.“ Guðrún sagði að þetta hvíldi líka á syni sínum Aroni. Hún sagði frá því að hann hafi skrifað konunni bréf. „Hann ákvað að skrifa langt bréf um að hann óski þess að hún fái frið í lífinu. Svona er hann bara. Hann er svo fallega hugsandi og er að kenna mér rosa mikið. Við erum að ganga í gegnum þetta saman. Eins og ég segi: Hún er með okkur í öllu.“

Værir þú tilbúin að fyrirgefa þessari konu? 

„Já, því það yrði léttir fyrir mig líka og hana. Þar sem hún á tvö börn líka.“ Hún sagðist bara bíða eftir því að konan svaraði bréfinu sem Aron skrifaði henni.

Guðrún vonast til þess að geta hvatt fólk til að njóta lífsins, njóta þess sem það hefur og að vera gott við hvort annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×