Innlent

Óvissustig í Múlakvísl og Jökulsá

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hlaupið í Múlakvísl árið 2011.
Hlaupið í Múlakvísl árið 2011. vísir/vilhelm
Hlaupvatn er komið fram í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi og hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli því lýst yfir óvissustigi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

Að sögn Gunnars B. Guðmundssonar, jarðfræðings hjá Veðurstofu Íslands er um lítið hlaup að ræða.

„Það er búin að vera aukin skjálftavirkni inni í Kötluöskjunni frá því í byrjun mánaðar. Jarðskjálftarnir eru grunnir, en stærsti var í morgun, þrír að stærð, klukkan 9.18,“ segir Gunnar sem segir þó að ekkert bendi til þess að eldgos í vændum.

„Á morgun, 9. júlí, eru þrjú ár síðan síðast hljóp úr Múlakvísl og brúin hrundi en hlaup eru algeng í júlímánuði.“

Fólk beðið um að fara með gát

Ferðafólk er beðið um að fara að öllu með gát á þessum svæðum vegna hættu á aukinni brennisteinsmengun.   „Í miklu magni getur mengunin verið hættuleg og það getur liðið yfir fólk. Það er þó ekki við veginn en ef fólk fer nálægt þá er hætta á því,“ segir Gunnar.

Síðustu daga hefur jarðhitavirkni undir Kötluöskju aukist og leiðni hefur farið hækkandi í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Að sögn Gunnars hefur töluverð brennisteinslykt verið á svæðinu síðan þá.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.