Fótbolti

Hetja Kostaríka: Man ekkert hvað ég var að hugsa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Keylor Navas ver úrslitaspyrnuna.
Keylor Navas ver úrslitaspyrnuna. vísir/getty
Kostaríka hefur komið skemmtilega á óvart á HM í Brasilíu en þessi Mið-Ameríkuþjóð braut blað í knattspyrnusögunni í gærkvöldi þegar liðið komst í átta liða úrslit.

Kostaríka vann Grikkland í vítaspyrnukeppni, en staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1-1. Kostaríkamenn sýndu mikla hetjudáð en þeir spiluðu einum færri síðasta klukkutímann.

Enginn var líklega betri en markvörðurinn Keylor Navas sem hefur verið frábær á mótinu. Þessi 27 ára gamli markvörður Levante á Spáni varði frábærlega skipti eftir skipti og varði svo eina vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni sem varð til þess að Kostaríka komst áfram.

„Ég man ekkert hvað ég var að hugsa,“ sagði Navas um markvörsluna í vítaspyrnukeppninni við vef FIFA eftir leikinn. „Það eina sem ég gerði var að bregðast við og verja skotið.“

„Það er hægt að æfa sig að verja víti og skoða hvað leikmenn hins liðsins gera, en ég verð að hrósa liðsfélögum mínum sem skoruðu úr öllum sínum spyrnum. Við erum að endurskrifa söguna og við viljum eiga stað í hjarta fólksins okkar að eilífu,“ sagði Keylor Navas.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×