Erlent

Pútín og Porosjenko ná saman um framhald vopnahlés

Randver Kári Randversson skrifar
Pútín og Porosjenko hafa snúið bökum saman í deilunni í Úkraínu.
Pútín og Porosjenko hafa snúið bökum saman í deilunni í Úkraínu. Vísir/AFP
Leiðtogar Úkraínu og Rússlands hafa náð samkomulagi um að tryggja tvíhliða gagnkvæmt vopnahlé milli aðskilnaðarsinna og úkraínskra yfirvalda og auka landamæraeftirlit milli ríkjanna. Reuters greinir frá þessu.

Frá þessu var greint eftir samtal milli Angelu Merkel, Þýskalandskeisara, Vladimirs Pútín, Rússlandsforseta, Petros Porosjenkos, forseta Úkraínu og Francois Hollande, Frakklandsforseta, en þau ræddust við í gegnum síma, í annað skiptið á jafn mörgum dögum.

Samkomulag náðist milli Pútíns og Porosjenkos um að unnið verði að frelsun gísla og fanga og að komið verði á fót efnislegum samningaviðræðum um lausn mála í Úkraínu með þátttöku fulltrúa úkraínskra og rússneskra stjórnvalda auk fulltrúa aðskilnaðarsinna.

Á sunnudag hvatti Porosjenko til þess að Rússar styrktu eftirlit á landamærum sínum til að koma í veg fyrir að aðskilnaðarsinnar flyttu vopn frá Rússlandi til átakasvæðanna í austurhluta Úkraínu.

Pútín hefur í viðræðunum lagt áherslu á að vopnahléið verði framlengt  og að komið verði á fót eftirliti með framkvæmd þess, með þátttöku Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Einnig hefur hann lagt til að þriðja lota viðræðna milli stjórnvalda í Kænugarði og fulltrúa héraðanna í suðausturhluta Úkraínu fari fram sem fyrst.

Evrópusambandið hafði lýst því yfir að gripið yrði til frekari refsiaðgerða gegn Rússum ef aðskilnaðarsinnar sýndu ekki vilja til að draga úr átökum á svæðinu áður en vopnahléið sem úkraínsk stjórnvöld lýstu yfir þann 20. júni rennur úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×