Innlent

30 til 35 störf færast til Akureyrar

Samúel Karl Ólason skrifar
Leiki vafi á lögmæti flutninga Fiskistofu mun sjávarútvegsráðherra fara með málið fyrir Alþingi.
Leiki vafi á lögmæti flutninga Fiskistofu mun sjávarútvegsráðherra fara með málið fyrir Alþingi. Vísir/Valgarður
„Mér fannst mjög mikilvægt að koma þessum skilaboðum til starfsmannanna sem fyrst, um hver áformin væru um flutning Fiskistofu áður en þeir myndu frétta það eftir öðrum leiðum. Þess vegna tel ég að að málið sé í eðlilegum farvegi.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra í kvöldfréttum RÚV um flutning Fiskistofu til Akureyrar.

Hann segir að tryggt verði að flutningurinn verði með lögmætum hætti og líklega muni um 30 til 35 störf flytjast norður á land. Um 70 manns starfa hjá Fiskistofu.

Starfsfólk stofnunarinnar sendu í dag frá sér tilkynningu þar sem flutningnum var mótmælt harðlega.

„Ljóst er að ákvörðun af þessu tagi hefur alvarlegar afleiðingar á afkomu fjölskyldna a.m.k. 62 starfsmanna, þar sem eru makar, börn og í ýmsum tilvikum aðrir nákomnir ættingjar,“ segir í yfirlýsingunni.

Dregið hefur verið í efa hvort flutningarnir séu yfir höfuð löglegir og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst efasemdum og andstöðu við aðgerðina.

Í samtali við RÚV segir Sigurður að sérstök heimild hafi verið sett í lög með breytingum á stjórnarráðslögum frá árinu 1999. Leiki vafi á lögmæti flutningana muni hann fara með málið fyrir Alþingi.


Tengdar fréttir

Fiskistofa flutt á Akureyri

Um 70 manns starfa hjá Fiskistofu og er ljóst að þetta er mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í Eyjafirði.

„Ég efast um að einhver fari norður“

„Það tekur þessu enginn vel. Þetta var bara köld vatnsgusa í andlitið. Við lítum á þetta sem ígildi fjöldauppsagna,“ segir reynslumikill starfsmaður hjá Fiskistofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×