Erlent

Átök í Úkraínu þrátt fyrir vopnahlé

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Aðskilnaðarsinnar í Donetsk í dag.
Aðskilnaðarsinnar í Donetsk í dag. NordicPhotos/AFP
Til átaka kom milli hermanna í Úkraínu í nótt þó svo að Petró Porosjenkó Úkraínuforseti hafi lýst yfir einhliða vopnahléi í austurhluta landsins í gær. Að minnsta kosti þrír úkraínskir hermenn slösuðust þegar aðskilnaðarsinnar, hliðhollir Rússum, gerðu atlögu að herstöð í Donetsk í Austur-Úkraínu.

Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og Francoise Hollande Frakklandsforseta í nótt um næstu skref í deilunni. Refsiaðgerðir Bandaríkjamanna gegn aðskilnaðarsinnum verða hertar á næstu dögum. Þá verða eignir helstu leiðtoga aðskilnaðarsinna frystar. Merkel, Hollande og Obama hafa ákveðið að herða refsiaðgerðir gegn Rússum.

Yfir þrjú hundruð og fimmtíu hermenn og aðskilnaðarsinnar hafa fallið í átökum í austurhluta Úkraínu síðastliðnar vikur.

Snemma í morgun tilkynnti Valdimír Pútín Rússlandsforseti að viðbúnaðarstig rússneska hersins í Mið-Rússlandi hafi verið hækkað og að hersveitirnar séu nú reiðubúnar til átaka.

Þessi tíðindi fylgja í kjölfarið á fyrirskipun Rússlandsforseta í gær þar sem viðbúnaður rússneskra hermanna á landamærunum að Úkráinu var aukinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×