Erlent

Læknar í Bretlandi vilja bann við sölu á sígarettum

Bjarki Ármannsson skrifar
Formaður vísindaráðs læknasamtakanna segir þetta skref í áttina að því að koma á tóbakslausu samfélagi fyrir 2035.
Formaður vísindaráðs læknasamtakanna segir þetta skref í áttina að því að koma á tóbakslausu samfélagi fyrir 2035. NordicPhotos/AFP
Bresku læknasamtökin samþykktu á árlegum fulltrúafundi sínum í morgun að þrýsta á stjórnvöld að banna endanlega sölu sígarettna til þeirra sem fæddir eru eftir árið 2000. The Guardian segir að tillagan hafi verið samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á fundinum, en einnig hafa margir stigið fram og gagnrýnt hugmyndina.

„Að byrja að reykja er ekki úthugsuð og útpæld ákvörðun sem fólk tekur á fullorðinsárunum,“ segir Tim Crocker-Buque, sem er á bak við tillöguna. „Áttatíu prósent reykingamanna byrja á unglingsárunum undir mikilli pressu frá jafnöldrum sínum.“

Hann segir einnig að þeir sem byrja að reykja fimmtán ára séu þrisvar sinnum líklegri til þess að deyja úr krabbameini af völdum reykinga en þeir sem byrja að reykja um hálfþrítugt.

Bresku læknasamtökin hafa áður samþykkt tillögur í svipuðum dúr. Árin 2002 og 2011 þrýstu samtökin á stjórnvöld að banna reykingar á almennum stöðum og í bílum þar sem börn eru farþegar. Bæði þessi bönn voru á endanum fest í lög.

Ætti að banna áfengi líka

Sheila Holmes, formaður vísindaráðs læknasamtakanna, er ein þeirra sem styður tillöguna. Hún segir þetta skref í áttina að því að koma á tóbakslausu samfélagi fyrir 2035.

Bresku reykingamannasamtökin Forest og Samtök tóbaksframleiðenda mæltu gegn tillögunni fyrir fundinn í morgun og sögðu að áhersla ætti frekar að vera lögð á að fylgja eftir núverandi lögum sem banna börnum að reykja.

Sumir læknar sem sóttu fundinn voru einnig andvígir því að berjast fyrir banninu. Sumir segja að endanlegt bann við sölu á sígarettum muni einfaldlega færa söluna á svartan markað. Aðrir létu þau ummæli falla að ef banna ætti sígarettur, ætti að banna áfengi sömuleiðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×