Erlent

Innbrotsþjófur náðist eftir að hafa skráð sig inn á Facebook

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Nicholas Wig náðist eftir að hafa skráð sig á Facebook.
Nicholas Wig náðist eftir að hafa skráð sig á Facebook.
Innbrotsþjófur í Dakotasýslu í Minnesota í Bandaríkjunum kom upp um sig með því að skrá sig inn á Facebook í tölvu á heimili sem hann braust inn í. Enginn var heima þegar hann braust inn og safnaði hann heimilismunum í mestu makindum og skellti sér á Facebook í leiðinni.

Hann gleymdi að skrá sig útaf vefnum.

Þegar James Wood, sem býr í húsinu, kom heim tók hann strax eftir því að einhver hafði brotist inn. „Þegar ég kom heim úr vinnunni sá ég tölvuskjáinn á hliðinni og tók eftir því að kreditkortum og peningum hafði verið stolið, ásamt ávísanahefti og úri. Ég fór alveg í kerfi,“ rifjar hann upp.

Wood hafði samband við lögreglu samstundis. Hann lagaði síðan tölvuskjáinn og kveikti á tölvunni. Þá tók hann eftir að þjófurinn, sem heitir Nicholas Wig, hafði gleymt að skrá sig útaf Facebook. Wood deildi myndum af Wig og sagði fólki að vara sig á honum, því hann væri þjófur.

Wig var ekki sáttur með myndbirtinguna og hafði samband við Wood, sem sannfærði hann um að þeir ættu að hittast, því þjófurinn hafði gleymt fötum heima hjá Wood. Og eins ótrúlega og það hljómar þá samþykkti þjófurinn Wig að hitta Wood. „Þetta er einn af heimskustu þjófum heims,“ sagði Wood við fréttastofur í Bandaríkjunum.

Wood hafði samband við lögregluna og sagði henni frá því hvar og hvenær þeir ætluðu að hittast. Þar var Wig svo handtekinn.

Saksóknari Dakotasýslu, James Backstrom, segir þetta vera alveg ótrúlegt mál. „Þjófurinn kemst líklega í spjallþætti, því hann er líklega ekki sá skarpasti,“ segir hann. Backstrom segir það ljóst að Wig hefði líklega aldrei náðst ef hann hefði ekki skráð sig inn á Facebook á vettvangi glæpsins.

Wig á að baki langa brotasögu og gæti fengið allt að tíu ára fangelsi og nokkurra milljóna króna sekt fyrir glæpinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×