Innlent

Braust inn og fór á Facebook

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tuttugu og tveggja ára karlmaður var í Héraðsdómi Vestfjarða dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa kveikt eld inni í atvinnuhúsnæði á Ísafirði með þeim afleiðingum að miklar bruna- og reykskemmdir urðu á húsnæðinu.  Manninum er gert að greiða allan sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, tæplega 1,2 milljónir króna. 

Tölvunotkun kom upp um hann

Maðurinn gaf sig ekki fram til lögreglu en leiddi rannsókn tölvurannsóknardeildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í ljós að maðurinn hafði notað tölvu í húsnæðinu til að fara inn á Facebook síðu sína og heimabanka og komst þannig upp um manninn. Hann sagðist ekki hafa gefið sig fram vegna hræðslu og taldi líklegt að hann hafi verið valdur af brunanum þar sem hann mundi eftir að hafa verið inni í húsnæði.  Hann sagði verknað sinn hafa valdið honum mikilli vanlíðan og íhugaði hann sjálfsvíg vegna þess. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna eftir eldi en mundi að hafa kastað eldspýtu í fötuna. Þá sagðist hann ekki vita af hverju hann gerði þetta og sagðist ekki hafa hugleitt hvað gæti gerst.  

Reiður fyrrum yfirmanni sínum

Maðurinn kvaðst hafa farið nokkuð drukkinn inn á fyrrum vinnustað sinn aðfararnótt sunnudagsins 24. júní 2012 og sagðist hafa rótað þar í hirslum og skúffum. Hann fann þar eldspýtu, kveikti á henni kastaði henni í ruslafötu sem þar var við skúffuskáp. Hjá lögreglu sagðist hann hafa verið reiður út í fyrrverandi yfirmann sinn sem sagði honum upp störfum skömmu áður og sagði hann það ástæðu þess að hann framdi verknaðinn. Hann kannaðist þó ekki við það í framburði sínum fyrir dómi né að hafa orðið var við það að kviknað hefði í húsnæðinu. Framburður hans var metinn ótrúverðugur og var því dæmdur, eins og fyrr segir, í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×