Fótbolti

Dramatískur sigur Hollendinga | Myndir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Klaas-Jan Huntelaar fagnar sigurmarkinu sínu í dag.
Klaas-Jan Huntelaar fagnar sigurmarkinu sínu í dag. Vísir/Getty
Holland er komið í fjórðungsúrslit HM í Brasilíu eftir dramatískan 2-1 sigur á Mexíkó þrátt fyrir að hafa lent marki undir í leiknum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Giovani Dos Santos þeim grænklæddu yfir með glæsilegu marki - föstu skoti utan rétt utan vítateigs.

Hollendingum gekk illa að sækja framan af leik og var ekki annað í kortunum en að Mexíkó myndi vinna glæsilegan sigur, sérstaklega miðað við frammistöðu Guillermo Ochoa í markinu en hann varði nokkrum sinnum frábærlega.

En Ochoa kom engum vörnum við þegar Wesley Sneijder þrumaði boltanum í netið eftir að Huntelaar, sem kom inn á sem varmaður fyrir Robin van Persie, skallaði boltann fyrir fætur þess fyrstnefnda.

Arjen Robben tók svo á sprett, eins og svo oft áður, í uppbótartíma og veiddi fyrirliðann Rafael Marquez í gildru við endalínuna. Robben féll við snertingu Marquez og vítaspyrna var dæmd. Huntelaar skoraði af öryggi úr spyrnunni.

Leikurinn fór fram við krefjandi aðstæður en Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, gaf út að hitastigið í Fortaleza hafi verið 38,8 gráður á meðan leiknum stóð. Af því tilefni voru tvær drykkjarpásur í leiknum og er það í fyrsta sinn sem það gerist í sögu keppninnar.

Holland mætir sigurvegaranum úr viðureign Kostaríku og Grikklands í fjórðungsúrslitunum. Síðarnefndu liðin eigast við klukkan 20.00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×