Fótbolti

Scolari: Getum ekki verið kurteisir lengur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Scolari faðmar Neymar að sér í leikslok.
Scolari faðmar Neymar að sér í leikslok. Vísir/Getty
Sem kunnugt er tryggði Brasilía sér sæti í átta-liða úrslitum á HM í fótbolta í gær eftir sigur á Chile eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni.

Luiz Felipe Scolari, landsliðsþjálfari Brasilíu, segir að sínir menn geti ekki leyft sér að vera "kurteisir" lengur.

"Við þurfum að fara að verja okkur og spila okkar leik á ný. Ég get verið yfirþyrmandi á köflum. Við höfum verið of kurteisir og ég get ekki verið kurteis lengur," sagði Scolari eftir leikinn gegn Chile.

"Við settum okkur það markmið að að verða heimsmeistarar. Nú eru stuðningsmennirnir farnir að krefjast þess af okkur, vegna þess að við sögðumst ætla að komast áfram og verða heimsmeistarar.

"Ef þú lofar einhverju, þá verðurðu að standa við það. Þú verður að gera allt sem í þínu valdi stendur til að efna loforðið. Það er það sem leikmennirnir eru að gera. Við tókum fjórða skrefið í dag. Það eru þrjú skref eftir að titlinum," sagði þjálfarinn sem bar lof á chileska liðið.

"Þegar dregið var í riðla sáum við strax að við gátum mætt Chile í útsláttarkeppninni. Þeir eru með mjög vel skipulagt lið og góða leikaðferð. Þetta var jafn og erfiður leikur og úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni."

Brasilíumenn mæta Kólumbíu í átta-liða úrslitunum á miðvikudaginn kemur, en Scolari ákvað að gefa sínum mönnum frí í dag.

"Það koma upp erfiðleikar í öllum leikjum og við þurfum að bæta okkar leik. Við vonumst til að geta nýtt okkur það sem gerðist í gær á jákvæðan hátt. Við tökum það besta út úr hverjum leik sem við spilum.

"Við erum með gott landslið. Við erum ekkert betri eða verri en hin liðin sem unnu sér þátttökurétt á HM.

"Við erum að spila á heimavelli fyrir framan okkar fólk. Stuðningsmennirnir standa með okkur, jafnvel þegar okkur gengur illa. Það er dásamleg tilhugsun og mjög mikilvægt fyrir okkur," sagði Scolari, en hann segir að Neymar höndli pressuna sem fylgir því að vera aðalstjarna brasilíska liðsins.

"Neymar er 21 eða 22 ára, en hann býr yfir reynslu miklu eldri leikmanns. Hann er þroskaður leikmaður.

"Hann er andlega sterkur. Það eru ýmsir hlutir í hans lífi, hans sögu, sem benda til þess að hann hafi verið tilbúinn síðan hann var 17, 18 ára.

"Hann er einföld manneskja og elskar að spila fótbolta," sagði Scolari að lokum.


Tengdar fréttir

Háspenna, lífshætta í Belo Horizonte | Myndir

Brasilía varð fyrsta liðið til tryggja sér sæti í átta-liða úrslitum á HM eftir sigur á Chile í vítaspyrnukeppni í Belo Horizonte í dag. Staðan var jöfn, 1-1, að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu. Staðan var einnig jöfn, 2-2, fyrir síðustu umferð vítaspyrnukeppninnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×