Fótbolti

Háspenna, lífshætta í Belo Horizonte | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Luiz horfir til himins.
David Luiz horfir til himins. Vísir/Getty
Brasilía varð fyrsta liðið til tryggja sér sæti í átta-liða úrslitum á HM eftir sigur á Chile í vítaspyrnukeppni í Belo Horizonte í dag. Staðan var jöfn, 1-1, að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu. Staðan var einnig jöfn, 2-2, fyrir síðustu umferð vítaspyrnukeppninnar.

Neymar
byrjaði á því að skora fyrir heimamenn, en varnarmaðurinn Gonzalo Jara skaut svo boltanum í stöngina og því var ljóst að Brasilía var komin í átta-liða úrslit, enn eitt heimsmeistaramótið í röð.

Leikurinn var gríðarlega hraður, sérstaklega framan af, og bæði lið spiluðu af miklum krafti, en alls dæmdi Howard Webb, dómari leiksins, 49 aukaspyrnur í leiknum og gaf sjö gul spjöld.

Brasilíumenn komust yfir á 18. mínútu þegar boltinn fór af David Luiz og í netið eftir hornspyrnu Neymars og skalla Thiagos Silva. Þetta var fyrsta mark Luiz fyrir brasilíska landsliðið.

Chile-menn lögðu ekki árar og jöfnuðu metin á 32. mínútu. Þar var að verki Alexis Sanchez með góðu skoti eftir sendingu frá Eduardo Vargas, en Brasilíumaðurinn Hulk gerði stór mistök í aðdraganda marksins.

Staðan var 1-1 í hálfleik, en skömmu áður en liðin gengu til búningsherbergja varði Claudio Bravo, fyrirliði Chile og nýjasti liðsmaður Barcelona, frábærlega frá Dani Alves.

Á 54. mínútu átti sér stað umdeild atvik þegar Hulk skoraði, en Webb taldi hann hafa handleikið boltann og dæmdi markið af, heimamönnum til lítillar ánægju.

Liðin skiptust á að sækja í seinni hálfleiknum; Julio Cesar varði frábærlega frá Charles Aranguiz og Bravo þurfti aftur að taka honum stóra sínum þegar hann varði skot Hulks. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.

Brasilíumenn voru heldur sterkari í framlengingunni, en það voru Chile-menn sem komust næst því að vinna leikinn þegar varamaðurinn Mauricio Pinilla þrumaði boltanum í slána á lokamínútu framlengingarinnar. Óhætt er að segja að nokkur brasilísk hjörtu hafi tekið aukaslög á því augnabliki. Hvorugu liðinu tókst þó að skora í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Vítaspyrnukeppnin (Brasilía byrjaði):

David Luiz skoraði - 1-0

Mauricio Pinilla varið - 1-0

Willian framhjá - 1-0

Alexis Sanchez varið - 1-0

Marcelo skoraði - 2-0

Charles Aranguiz skoraði - 2-1

Hulk varið - 2-1

Marcelo Diaz skoraði - 2-2

Neymar skoraði - 3-2

Gonzalo Jara stöngin - 3-2

Brasilía vann vítaspyrnukeppnina 3-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×