Fótbolti

Slær Brasilía Chile enn og aftur út?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Brasilíu og Chile á HM 1998.
Úr leik Brasilíu og Chile á HM 1998. Vísir/Getty
Brasilía og Chile mætast í 16-liða úrslitum á HM í fótbolta í Belo Horizonte klukkan 16:00 í dag.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leiðir þessara tveggja liða liggja saman á HM, en Brasilía hefur slegið Chile úr leik í þau þrjú skipti sem síðarnefnda liðið hefur komist í útsláttarkeppni á HM.

Á HM 1962 í Chile vann Brasilía heimamenn í undanúrslitum með fjórum mörkum gegn tveimur. Garrincha og Vavá skoruðu tvö mörk hvor fyrir Brasilíu en Jorge Toro og Leonel Sánchez mörk Chile sem vann Júgóslavíu 1-0 í leiknum um þriðja sætið þremur dögum síðar. Brasilíumenn vörðu hins vegar heimsmeistaratitil sinn með því að sigra Tékkóslóvakíu 3-1 í úrslitaleik á Estadio Nacional í Santíagó á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga.

Liðin mættust næst 36 árum seinna í 16-liða úrslitum á HM í Frakklandi þar sem Brasilíumenn höfðu betur, 4-1. César Sampaio og Ronaldo skoruðu tvö mörk hvor fyrir Brasilíu en Marcelo Salas skoraði eina mark Chile. Brasilía komst alla leið í úrslitaleikinn þar sem liðið tapaði 3-0 fyrir heimamönnum.

Brasilía og Chile mættust svo aftur í 16-liða úrslitum á HM í Suður-Afríku fyrir fjórum árum. Leikið var á Ellis Park í Jóhannesarborg og fóru Brasilíumenn með sigur af hólmi, 3-0. Juan, Luís Fabiano og Robinho skoruðu mörkin fyrir Brasilíu sem féll úr leik í næstu umferð fyrir Hollandi.

Aðeins fimm leikmenn (Júlío César, Maicon, Dani Alves, Ramires og Thiago Silva) eru enn í brasilíska hópnum frá því fyrir fjórum árum á meðan 11 af 23 leikmönnum í chileska hópnum voru líka í hópnum 2010.

Sé litið á alla innbyrðisleiki þjóðanna, þá standa Brasilíumenn mun betur að vígi. Alls hafa liðin leikið 68 leiki; Brasilía hefur unnið 48, 13 leikjum hefur lyktað með jafntefli, en Chilemenn hafa aðeins unnið sjö.

Fylgst verður með leiknum á eftir í beinni textalýsingu hér á Vísi.


Tengdar fréttir

Zamorano: Stuðningsmaður liðsins númer eitt

Ivan Zamorano, fyrrum framherji Real Madrid, Internazionale og landsliðs Chile, var í viðtali við heimasíðu FIFA, Aþjóðaknattspyrnusambandsins, í gær þar sem hann lofaði þá kynslóð sem nú ber uppi landslið Chile.

Háspenna, lífshætta í Belo Horizonte | Myndir

Brasilía varð fyrsta liðið til tryggja sér sæti í átta-liða úrslitum á HM eftir sigur á Chile í vítaspyrnukeppni í Belo Horizonte í dag. Staðan var jöfn, 1-1, að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu. Staðan var einnig jöfn, 2-2, fyrir síðustu umferð vítaspyrnukeppninnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×