Erlent

Francis Páfi: „Kommúnistar hafa í raun stolið boðskapnum okkar"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Francis Páfi.
Francis Páfi. Vísir/Getty
Francis Páfi segir að kommúnistar séu í raun kristnir inn við beinið og að þeir hafi stolið boðskap kristinnar trúar. Þetta kemur fram í viðtali við blaðið Il Messaggero í Rómarborg.

Páfinn var spurður út í umfjöllun blaðsins Economist, en þar var hann sagður hljóma eins og lenínisti, því hann gerir misskipting auðs svo oft að umfjöllunarefni sínu. Páfinn hefur oft gagnrýnt hið kapítalíska hagkerfi og kallað eftir umbreytingum á hagkerfi heimsins.

„Kommúnistar hafa í raun stolið boðskapnum okkar. Í gegnum aldanna rás hefur kristni fjallað um þá fátæku og stutt við þá. Kommúnistar hafa tekið þetta upp og halda að þetta sé þeirra boðskapur. En þeir eru í raun tuttugu öldum of seinir. Þannig að þegar þeir tala um boðskap sinn má segja við þá að þeir séu í raun kristnir menn,“ útskýrir páfinn.

Í valdatíð sinni, frá því í mars á síðasta ári, hefur Francis páfi oft látið í sér heyra og talað um þeir fátæku verði útundan. Reuters-fréttastofan sagði frá því fyrr í mánuðinum þegar páfinn sagði fátæka ekki hafa nægilegt aðgengi að góðum og hollum mat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×