Erlent

Kreppan olli yfir 10 þúsund sjálfsvígum á Vesturlöndum

Randver Kári Randversson skrifar
Atvinnuleysi er ein af helstu þáttum sem skýra aukningu á sjálfsvigum á Vesturlöndum í kreppunni.
Atvinnuleysi er ein af helstu þáttum sem skýra aukningu á sjálfsvigum á Vesturlöndum í kreppunni. Vísir/AFP
Ný bresk rannsókn sýnir að sjálfsvígum fjölgaði töluvert á Vesturlöndum í kreppu undanfarinna ára. Rannsóknin er einnig talin sýna fram á mikilvægi stuðningsaðgerða við fólk í efnahagserfiðleikum. BBC greinir frá þessu.

Í rannsókninni var stuðst við gögn frá 24 Evrópusambandsríkjum auk Bandaríkjanna og Kanada. 

Sjálfsvígum fór fækkandi í Evrópu fram til ársins 2007, en árið 2009 hafði orðið 6,5% aukning í tíðni sjálfsvíga, sem hélt áfram til ársins 2011. Það jafngildir 7950 fleiri sjálfsvígum heldur en búast hefði mátt við miðað við fyrri þróun.

Sjálfsvígstíðni hafði einnig verið á niðurleið í Kanada en merkjanleg aukning varð þegar kreppan skall á árið 2008, sem leiddi til 240 fleiri sjálfsvíga.

Í Bandaríkjunum hafði sjálfsvígstíðni þegar aukist áður en kreppan hófst en eftir að hún hófst jókst tíðnin enn frekar, sem leiddi til 4750 fleiri sjálfsvíga miðað við fyrri tíðni.

Niðurstöðurnar sýna að atvinnuleysi, húsnæðismissir og miklar skuldir eru helstu áhrifaþættirnir í þessu sambandi.

Þessi þróun varð þó ekki í öllum löndum. Í Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki varð engin aukning fjölda sjálfsvíga. Það þykir til marks um að aðgerðir til að aðstoða fólk við að komast aftur á vinnumarkað skili árangri, en þessi þrjú lönd hafa öll lagt mikla áherslu á slíkar aðgerðir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×