Erlent

„Ástarhreiður“ áróðursmálaráðherrans til sölu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/GETTY
Sjötíu herbergja „ástarhreiður“, Joseph Göbbels, áróðursmálaráðherra Þriðja ríkisins, er falt fyrir rétta upphæð og leita yfirvöld í Berlín þessa dagana að álitlegum kaupendum fyrir eignina.

Húsið hefur í raun verið til sölu undanfarna tvo áratugi en sökum eðlis eignarinnar þurfa væntanlegir fjárfestar að uppfylla hin fjölmörgu skilyrði sem engum hefur enn tekist að fylla. The Telegraph greinir frá þessu.

Húsið er einnig talið það eina sem enn er talið standa í nær upprunalegri mynd af þeim fjölmörgu húsum sem áður voru í eigu nasista þegar veldi þeirra reis hæst á fjórða áratug síðustu aldar. Í vistarverum hússins, sem er í um 38 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Berlín, er meðal annars að finna kvikmyndasal, vel útbúið veislurými og víðáttumikla verönd.

Göbbels nýtti húsið til hins ítrasta, þá kannski hvað helst í hina margvíslegustu lostaleiki með fjölda kvenna, þar á meðal leikkonu af gyðingaættum. Einnig er talið að hann hafi ritað þar mörg fúkyrðin um gyðinga sem hann lét flakka í frægum ræðum sínum sem skóku heimsbyggðina.  Göbbels endaði ævi sína þó ekki þar heldur fyrirfór hann sér, ásamt konu sinni og sex börnum, fyrir framan neðanjarðarbyrgi Hitlers undir loks seinna stríðs.

Húsið hefur þó ekki staðið ónýtt í þá tæplega sjö áratugi sem liðnir eru frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Eftir að stríðinu lauk var það meðal annars notað sem kommúnískur lýðháskóli en er nú bagalegur minnisvarði þýskra stjórnavalda um dökka fortíð. Ekki bætir úr skák að viðhald á húsinu er rándýrt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×