Erlent

Ráðist gegn vígamönnum talíbana í Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Her Pakistan hefur hafið viðamikla aðgerð gegn vígamönnum við landamæri Pakistan og Afganistan. Fyrr í dag voru loftárásir gerðar víða um svæðið. Árásin beinist að talíbönum í Pakistan sem gerðu árás á flugvöll í Karachi í síðustu viku. Skriðdrekar, hermenn og flugvélar hersins koma að aðgerðinni.

Samkvæmt BBC hefur herinn gefið út að fjöldi vígamanna hafi fallið í loftárásunum, en það hefur ekki fengist staðfest. Meðal þeirra sem talinn er hafa fallið er skipuleggjandi árásarinnar á flugvöllinn.

„Undir leiðsögn yfirvalda, hefur her Pakistan sett af stað viðamikla aðgerð gegn erlendum og innlendum hryðjuverkamönum sem fela sig í griðarstöðum í norður-Waziristan,“ segir í tilkynningu frá hernum. Öryggissveitir í Afganistan hafa verið beðnar um að loka landamærunum að Afganistan.

Bandaríkin hafa um árabil þrýst á herinn að færa sig inn á þetta svæði til að berjast við talíbana. Fréttaritari BBC segir aðgerðum hersins hafa fjölgað mikið á svæðinu frá því árásin var gerð á flugvöllinn í Karachi, þar sem 28 manns létu lífið.



Fjölmargir vígamenn talíbana eru taldir halda til á svæðinu sem um ræðir.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×