Innlent

Sme, reiðhjólamaður og laus hundur í hár saman

Jakob Bjarnar skrifar
Sigurjón og Garpur voru á morgungöngu, Garpur laus og gjammaði á hjólreiðamann sem hrópaði þá ókvæðisorðum að blaðamanninum.
Sigurjón og Garpur voru á morgungöngu, Garpur laus og gjammaði á hjólreiðamann sem hrópaði þá ókvæðisorðum að blaðamanninum.
Sigurjón M. Egilsson blaða- og útvarpsmaður, sem oft er kallaður sme með vísan til upphafstafa nafns hans, er hundaeigandi og er duglegur að stunda útivist og göngur ásamt með hundi sínum Garpi, sem er af íslensku fjárhundakyni. Þeir félagar lentu í hremmingum í gærmorgun; þeim lenti saman við glannalegan reiðhjólamann. Hvorki Sigurjón né hjólamaðurinn telst saklausir en Garpur fær að njóta vafans.

Með hundinn lausan

„Ég játa. Var ekki með Garp í taumi þegar við gengum Blikastaðarnes í morgun. Veðrið var frábært og að venju hljóp hann í fjörunni og fékk sér nokkrum sinnum stutta sundspretti. Gott og vel. En, þar sem við gengum á göngustígnum nánast hlið við hlið kom aftan að okkur maður á reiðhjóli og það á ógnarhraða, eflaust ekki undir 30 km. Að sið reiðhjólinga hringdi hann ekki bjöllunni, gerði okkur ekki viðvart,“ segir Sigurjón sem greinir frá þessum væringum á Facebook.

Sigurjón segir svo frá að hann hafi ekki haft nokkurt svigrúm til að koma taumi á Garp, svo snögglega birtist maðurinn á hjólinu og Garpur hljóp að fjárhundasið á eftir hjólinu, nokkra fáa metra, og lét í sér heyra. „Hjólreiðarmanninum mislíkaði, snéri sér í hálfhring og kallað eitthvað til mín, sem ég gat ekki greint hvað var, en ekki leyndi sér ekki að hann var ósáttur við að Garpur var ekki í taumi.“

Stórhættulegur hjólamaður

Hundaeigandinn Sigurjón viðurkennir fúslega að hann hefði lögum samkvæmt átt að hafa Garp í taumi. En bendir á að það afsaki ekki glanna- og háskalega ferðina sem var á hjólamanninum. „Hefði ég verið einn á ferð og ákveðið að ganga þvert yfir gangstíginn í sömu mund og hjólreiðingurinn kom á ofsaferð, hvað þá? Örugglega hefði orðið slys.“

Og Sigurjón segist ekki vita hvor er verri, hann með lausan hund eða hjólamaðurinn „brunandi á ógnarhraða á þröngum göngustíg og hirða ekkert um að láta vita af sér.“

Garpur fær áfram að ganga laus

Að sögn Sigurjóns er þessi maður sem hann lenti í stælum við ýkt dæmi um framferði reiðhjólamenn. Þeir séu ekki allir svona. „Í sömu gönguferð kom annar reiðhjólingur,“ eins og Sigurjón kallar hjólamennina. „Garpur sýndi honum áhuga, sá kallaði til mín og sagði mér engar áhyggjur að hafa. Hann sagðist skilja hunda og hafa gaman af þeim.“

Og Sigurjón ætlar sér ekki að láta lög um lausagöngu hunda í Reykjavík aftra því að þeir félagar fái notið morgungöngunnar til hins ýtrasta: „Í fyrramálið fær Garpur frelsi á sama stað og venjulega. Annað er hundum ekki bjóðandi,“ segir Sigurjón og er með eftirfarandi skilaboð til reiðhjólafólks: „Ef þeir sem hjóla hratt lesa þetta, þá vinsamlegast látið okkur gangandi vita eins fljótt og hægt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×