Innlent

Hætta á að myndskilaboð misskiljist - „Netið gleymir engu“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
„Þegar ung og ómótuð börn lenda í því að myndum af þeim eða einhverjum upplýsingum um þau er dreift getur það haft afdrifaríkar afleiðingar og mér er mjög umhugað um að koma í veg fyrir slíkt.“
„Þegar ung og ómótuð börn lenda í því að myndum af þeim eða einhverjum upplýsingum um þau er dreift getur það haft afdrifaríkar afleiðingar og mér er mjög umhugað um að koma í veg fyrir slíkt.“
Tillaga Lífar Magneudóttur, fulltrúa VG í skóla- og frístundaráði, um að sett verði af stað fræðslu- og forvarnarátak fyrir börn og ungmenni í grunnskólum og frístundarstarfi um miðlun mynda með nútímatækni var samþykkt í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. 

Tillagan felur einnig í sér að kenna ungmennum ábyrgðina sem því fylgir að umgangast og nota slíka miðla og fræða þau um skaðsemi sem notkunin getur valdið.

„Þetta er alltaf að koma upp aftur og aftur. Þetta úrræðaleysi, sem bæði kennarar og foreldrar standa fyrir þegar viðkvæm mál koma upp,“ segir Líf í samtali við Vísi.

Tillagan var samþykkt af einróma. „Það eru allir með mér í liði í dag.“

Áherslan á m.a. að vera á Snapchat, Instagram, Vimeo, Vine og myndbirtingar á hvers kyns félagsmiðlum. Einnig þarf að standa að fræðslu um viðbrögð og forvarnir fyrir stjórnendur skóla, kennara, frístundafræðinga, aðra starfsmenn og foreldra.

Ekki allir foreldrar tæknilæsir

„Við erum með alls konar dæmi. Til dæmis að krakkar sendi myndir af sér fáklæddum til einhvers sem þeir þekkja. Það er hætta á því að myndskilaboð misskiljist eða að sá sem fær myndina í hendur sendi þær áfram og því miður eru fjölmörg dæmi um slíkt og netið gleymir engu,“ segir Líf.

Það þurfi að liggja skýrt fyrir hvernig bregðast eigi við þegar slík mál koma upp. „Fyrstu viðbrögðin skipta allra mestu máli. Það þarf að færa kennurum verkfæri í hendurnar, einhverjar leiðbeiningar til þess að fara eftir.“

„Okkur finnst líka brýnt að leggja áherslu á forvarnir og fræðslu. Það er alltaf best að fyrirbyggja í stað þess að meðhöndla,“ segir Líf. „Semsagt að taka á vandanum áður en hann verður of umfangsmikill.“

Ekki séu allir foreldrar og þeir sem vinna með börnum tölvu- og tæknilæsir. Tæknin hafi þróast hratt og því sé ekki skrítið að það nái ekki allir að fylgjast með. Sem dæmi megi nefna þegar Vine-stjörnur gerðu allt vitlaust í Smáralind. Unglingar hópuðust í Smáralind til þess að berja stjörnurnar augum en foreldrar þeirra og þjóðfélagið allt vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið. Vine er eitt dæmi um nýjan samfélagsmiðil sem nýtur mikilla vinsælda hjá ungu fólki. Þar deila notendur stuttum myndböndum. Miðillinn var orðinn gríðarlega vinsæll meðal unglinga á stuttum tíma.

„Það er gott dæmi um hversu mikil áhrif þessir samfélagsmiðlar hafa,“ segir Líf.

Notkun netmiðla fylgir ábyrgð

„Við verðum að gera ungmennunum grein fyrir því að það fylgir því ábyrgð að nota netmiðla.  Eins og við erum með umferðarreglur sem við kennum þeim, þá þurfa að vera ákveðnar umgengnisreglur á netinu sem öllum ber að fara eftir.

„Þegar ung og ómótuð börn lenda í því að myndum af þeim eða einhverjum upplýsingum um þau er dreift getur það haft afdrifaríkar afleiðingar og mér er mjög umhugað um að koma í veg fyrir slíkt.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×