Innlent

Félagsmálaráðherra segir nei við einkavæðingu virkjana

Heimir Már Pétursson skrifar
Félagsmálaráðherra segir ekkert í stjórnarsáttmálanum um sölu á hlut í Landsvirkjun og leggst alfarið á móti hugmyndum fjármálaráðherra þar að lútandi. Ekki komi til greina að einkavæða orkufyrirtæki landsins.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem fer með hlutabréf ríkisins í Landsvikjun, ávarpaði aðalfund hennar í gær og sagðist vilja kanna þann möguleika að ná samstöðu um að selja lífeyrissjóðunum allt að 20 prósent í Landsvirkjun.

Fjármálaráðherra hefur ekki kynnt þessar hugmyndir sínar við ríkisstjórnarborðið. En ljóst er að andstaðan við málið er mikil á meðal framsóknarmanna og því yrði erfitt að ná samstöðu um málið.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir þetta útspil Bjarna hafa komið henni á óvart.

„Já, þetta er ekki í stjórnarsáttmálanum og það liggur alveg fyrir hver afstaða framsóknarmanna er varðandi sölu og einkavæðingu á Landsvirkjun,“ segir félagsmálaráðherra. „Hún er sú að við teljum að Landsvirkjun eigi að vera í eigu ríkisins,“ bætir Eygló við.

Fjármálaráðherra sé greinilega að tjá sínar eigin skoðanir og megi það eins og aðrir í ríkisstjórninni.

„Það liggur fyrir að ég hef mjög lengi verið á móti einkavæðingu og sölu á hvort sem við erum að tala um hluta eða öllu leyti varðandi orkufyrirtæki í ríkiseigu. Það hefur ekki breyst. Ég hef tjáð mig um það árið 2007, 2010 og nú árið 2014 og það liggur fyrir ályktun á flokksþingi framsóknarmanna varðandi þetta mál,“ segir Eygló.

Eygló segir stöðu Landsvirkjunar og þörf lífeyrissjóðanna fyrir fjárfestingarkosti engu breyta í þessum efnum.

„Ég held við eigum að huga að því hvert er hlutverk Landsvirkjunar og hvert er hlutverk þeirra orkufyrirtækja sem eru í ríkiseigu. Það er í mínum huga að tryggja ákveðna grunnþjónustu. Þjónustu sem er nauðsynleg fyrir öll heimili og öll fyrirtæki í landinu og gera það á sem hagkvæmastan máta en ekki það endilega að leysa úr einhverjum tímabundnum vandkvæðum hjá lífeyrissjóðunum,“ segir Eygló Harðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×