Innlent

Maður grunaður um manndráp framseldur til Litháens

Bjarki Ármannsson skrifar
Maðurinn segist óttast glæpagengi í heimalandi sínu.
Maðurinn segist óttast glæpagengi í heimalandi sínu. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 6. maí um framsal manns til Litháen. Úrskurður Héraðsdóms var staðfesting ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá því 28. febrúar.

Framsalsbeiðni litháískra dómsmálayfirvalda barst ráðuneytinu í nóvember síðastliðnum en maðurinn, sem er litháískur ríkisborgari, er grunaður um manndráp í heimalandi sínu, að þvi er kemur fram í málsgögnum.

Á hann að hafa ásamt hópi annarra manna ráðist með vopnum og ofbeldi að manni sem þeir töldu sig eiga sókött við og samverkamenn þess grunaða skotið manninn með loftbyssum og skambyssu. Átti verknaðurinn sér stað þann 5. Janúar 2009 en sá særði lést nokkrum dögum síðar.

Í beiðni litháískra yfirvalda segir að maðurinn hafi brotið farbann og tilkynningarskyldu sem hann sætti vegna málsins og að handtökuskipun hafi verið gefin út í júlí 2010. Maðurinn sagðist fyrir rétti hafa rofið farbannið og komið til Íslands af ótta við meðlimi glæpahóps.

Hann hélt því jafnframt fram að ástæða sé til að óttast um líf hans og heilsu, verði hann framseldur og þurfi að dveljast í litháísku fangelsi. Hann óttist ofsóknir og barsmíðar af hálfu glæpagengisins, sem hafi í tvígang gengið í skrokk á honum og hótað systur hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×