Sannleiksnefndin var skipuð þrettán manns í ágúst 2012 í kjölfar þess að Hjörtur Kjerulf tók myndband fyrir neðan bæinn Hrafnkelsstaði af torkennilegri veru á sundi í Jökulsá í Fljótsdal. Myndbandið vakti gríðarlega athygli og trúa margir að þar hafi sjálfur Lagarfljótsormurinn verið á ferð, en áin rennur í Lagarfljót. Hátt í fimm milljónir hafa skoðað myndbandið.
Árið 1997 var hverjum þeim sem næði mynd af orminum heitið hálfrar milljón íslenskra króna. „Það var samkeppni á sínum tíma og fjölmargar myndir, bæði ljósmyndir og málverk, var skilað til keppninnar,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, formaður Sannleiksnefndarinnar.

Nefndin skal taka afstöðu til afhendingu verðlauna
Hjörtur fór svo fram á það síðasta sumar að fá verðlaunin greidd. Stuttu síðar vísaði bæjarráð í Fljótsdalshéraði myndum frá öðrum aðila til Sannleiksnefndarinnar.
Nefndinni er ætlað að taka afstöðu til þess hvort sveitarfélaginu væri rétt að greiða út þau verðlaun sem heitið var.
„Það hefur ekki verið gert ráð fyrir að neinar verðbætur verði. En kannski, ef við komumst að þeirri niðurstöðu að þarna sé um Lagarfljótsorminn að ræða, er komið tilefni til þess að ákveða það,“ segir Stefán.
Mikilvægt að halda ekki of marga fundi
Stefán hefur, eins og flestir aðrir, séð myndbandið en hann segist þó enn ekki hafa mótað sér endanlega skoðun á því. Hann er þó fullviss um að Lagarfljótsormurinn sé til, það sé bara spurning hvort þetta sé hann eða ekki.
Hann segir að ekki hafi verið talið rétt að halda of marga fundi í nefndinni því mikilvægt sé að hver og einn nefndarmaður sé bundinn af sannfæringu snni við yfirferð og mat á myndefninu.
Kostnaður nefndarinnar ekki farinn úr böndunum
Rökin fyrir framlengingu starfstímanefndarinnar eru meðal annars að hér á landi hafi skapast rík hefð fyrir skipun rannsóknarnefnda og undantekningarlaust hafi orðið að lengja starfstíma þeirra verulega. Ætla megi að það myndi draga úr trúverðugleika nefndarstarfsins ef það sama yrði ekki gert fyrir þessa nefnd.

Önnur rök séu þau að gera megi ráð fyrir því að nefndarmenn muni vilja ljúka vinnu sinni með vettvangsathugunum. Rétt sé að gefa þeim kost á að nýta sumarið til þess.
Ekki gott að blanda flokkapólitík í málið
Einnig megi gera ráð fyrir því að ef nefndin kynnir niðurstöður sínar í aðdraganda kosninga geti málið orðið pólitískt, enda séu heitar skoðanir á því í samfélaginu. Tilgangurinn með skipan sérstakrar sannleiksnefndar verði að telja að hafi verið, eins og annars staðar þar sem slíkt hefur verið gert, að stuðla að sátt og eindrægni um niðurstöðurnar. Í því skyni sé mikilvægt að blanda ekki flokkapólitík við vinnu nefndarinnar.
Þá telur nefndin að viðeigandi sé að nýta það tækifæri sem gefst á héraðshátíðinni Ormsteiti. Eins og nafn hátíðarinnar gefi til kynna sé hún að nokkru leyti haldin orminum í Lagarfljóti til heiðurs. Á henni mætti því kynna formlega niðurstöður nefndarinnar með viðeigandi viðhöfn.