Innlent

Andstaðan kom Sigmundi á óvart

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
vísir/valli
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir andstöðu þingmanna stjórnarandstöðunnar við skuldalækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar hafa komið sér verulega á óvart. Aldrei hafi verið ætlunin að ná til allra hópa. RÚV greindi frá þessu í kvöldfréttum sínum.

„Fyrst þegar þetta kom fram vissu þau ekki hvernig átti að taka á þessu, fannst það kannski svolítið óþægilegt að það væri verið að standa við þessi stóru fyrirheit þar sem hafði verið sagt að væri ekki hægt að framkvæma. En að þau skildu vera á móti því, ég var bara verulega hissa og undrandi á því,“ sagði Sigmundur í samtali við RÚV.

Tveir þingmenn Sjálfsstæðisflokks greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, þeir Pétur Blöndal og Vilhjálmur Bjarnason, ásamt öllum þingmönnum stjórnarandstöðu. Helsta gagnrýnin á lögin er sú að þau mismuni samfélagshópum og skilji marga útundan.

Lögin voru engu að síður samþykkt með 33 atkvæðum gegn 22 í gærkvöldi. Í kjölfarið munu landsmenn geta sótt um lækkun á húsnæðislánum seinnipartinn á morgun, að því gefnu að ekki komi upp nein tæknileg vandamál, að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar verkefnisstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×