Innlent

Það verður ekki ball suður í Festi framar

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér verða ekki böll framar.
Hér verða ekki böll framar.
Festi, hið sögufræga félagsheimili Grindvíkinga, má muna sinn fífil fegurri. Í húsinu, sem nú er í niðurníðslu, fóru fram margir frægir tónleikar, meðal annars fyrstu tónleikar Stuðmanna.

„Þetta fer í fínustu taugar gamalgróinna Grindvíkinga, að sjá húsið grotna svona,“ segir Þorvaldur Sverrisson, sem hefur verið búsettur í bænum í áraraðir. Hann segir húsið eiga stóran sess í hjörtum margra Grindvíkinga. „Margir unnu að uppbyggingu hússins á sínum tíma og þarna var ótrúlega gaman að vera,“ útskýrir hann. Margir Grindvíkingar eru uggandi yfir stöðu hússins og vilja sjá það í betra standi.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir málið vera frekar erfitt viðureignar fyrir bæjaryfirvöld. „Já, síðan húsið var byggt hefur samfélagið breyst. Stemningin sem náðist á áttunda áratugnum, þegar sveitaböllin voru sem vinsælust, kemur aldrei aftur. Við tókum þá ákvörðun að selja húsið fyrir rúmu ári síðan og ætlunin er að breyta húsinu í hótel."

Oft var mikið stuð á sveitaböllunum hér áður fyrr.
Sögunni haldið til haga

Ágúst Gíslason er eigandi hússins og hann er með skýr áform. „Þetta er alveg skýrt. Við ætlum að breyta þessu í 36 herbergja hótel. Við erum að vinna að fjármögnun hótelsins og ég vænti svars frá bankanum í þessari viku.“ Ágúst segir að búið sé að teikna hótelið og öll hönnun liggi fyrir.

Hann segir að sögu hússins verði haldið til haga. „Já, já, já. Þarna var maður sem ungur maður. Ætli við höfum ekki vegg með myndum frá blómatímanum. En í markaðssetningunni ætlum við að gera út á hraunið og flekaskilin. Það höfðar frekar til ferðamannanna. Þeir vita náttúrulega lítið um þessi gömlu sveitaböll og hvernig við Íslendingar drukkum hérna í gamla daga.“

Ágúst fór sjálfur á fjölda balla í Festi. „En nú eru tímarnir breyttir. Það verður erfitt að endurvekja þessa sveitaballa stemningu. Hún er allavega ekkert að koma aftur í bráð. En í staðinn reynum við að varðveita húsið með því að byggja upp hótel.“

Ótrúlegir tímar

Veitingamaðurinn Tómas A. Tómasson, betur þekktur sem Tommi í Tommaborgurum, var framkvæmdastjóri staðarins á mesta blómatímanum. „Ég var þarna frá öðrum maí 1974 til fyrsta september 1977. Þetta var skemmtilegasti tími ævi minnar,“ rifjar hann upp.

Tommi segir að þetta hafi verið ótrúlegir tímar. „Þetta var alveg stórkostlegt. Þarna voru mörg sögufræg böll haldin, maður lifandi. Ég man sérstaklega eftir tveimur böllum. Á öðru ballinu voru um þúsund manns, en við vorum bara með pláss fyrir 450. Það var því ansi skrautlegt. Hitt ballið var fyrsta ball Stuðmanna.“

Hann þakkar starfi sínu í Festi góðan árangur í veitingabransanum. „Ég var þekktur sem Tommi í Festi áður en ég byrjaði í Tommaborgurum. Mér þykir afskaplega vænt um tímann í Grindavík. Þarna bjó ég og það var alveg ótrúlegt hvað þetta gekk vel. Þarna voru um tíu rútur nánast laugardagskvöld.“ 

Tommi bætir því við að þegar húsið opnaði 1972 hafi líklega um 1200 manns búið í Grindavík. „Íbúafjöldinn var kominn upp í um fimmtán hundruð manns.  Því var alveg ótrúlegt hversu margir komu á böllin.“

Tómas A. Tómasson, eða Tommi í Tommaborgurum.
Stuðmenn komu með einkaflugvél

Jakob Frímann Magnússon Stuðmaður man vel eftir aðdraganda fyrsta opinbera ballsins sem Stuðmenn héldu. „Ég man reyndar ekki mikið eftir ballinu sjálfu,“ segir hann kátur og rifjar upp skrautlegt ferðalag Stuðmanna frá London til Grindavíkur.

„Við vorum stödd í London við upptökur og áttum flug til Íslands. Við pöntuðum leigubíl og ég er alveg viss um að bílstjórinn, sem talaði eiginlega enga ensku og var nýfluttur frá Afríku, hafi ekki haft leyfi til að keyra þarna í London, öfugu megin. Hann rataði lítið og toppaði svo allt með því að keyra á strætisvagn, þannig að við misstum af fluginu okkar.“

Þá voru góð ráð dýr. „Við fengum far með einkaflugvél. Þetta var sjö manna rella og við vorum sjö, með fullt af hljóðfærum með. Hún var gjörsamlega yfirfull vélin. Þetta var ákaflega óþægilegt flug og þurftum við að drekka svolítið koníak til að þola flugið.“ 

Þegar sveitin kom til Íslands voru meðlimir hennar stoppaðir í tollinum. „Öll hljóðfærin okkar voru tekin þannig að við þurftum að fá lánuð hljóðfæri frá einhverri unglingahljómsveit frá Sandgerði. Þau voru alveg hræðileg, það var varla hægt að spila á þau.“

Stuðmenn héldu sína fyrstu tónleika í Festi.
Egill Ólafsson í sundbol

Ballið átti að hefjast upp úr miðnætti en vegna allra tafanna, bæði í London og í tollinum á Keflavíkurflugvelli, þurfti að lengja afgreiðslutímann í Festi. „Já við stálumst til að hafa opið lengur. Sveitin var komin þarna upp úr eitt og húsið átti að loka klukkan tvö. Ætli við höfum ekki haft opið hálftíma lengur,“ rifjar Tommi upp og heldur áfram:

„Þetta var alveg stórkostleg skemmtun. Þarna var Egill Ólafsson í kvenmanssundbol.“

Jakob Frímann segist ekki muna mikið eftir ballinu, eftir flugferðina erfiðu. „Maður var látinn labba einn hring í kringum Festi, til að fá ferskt loft, síðan var maður settur í einhvern röndóttan jakka og meira man ég ekki,“ segir hann og hlær.

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri.
Takmörkuð starfsemi í þónokkur ár

Róbert Ragnarsson bæjarstóri segir að bæjarfélög víða um land glími við svipað vandamál og Grindvíkingar; erfitt er að finna félagsheimilum sem áður voru í blóma nýjan tilgang. „Þarna hefur verið takmörkuð starfsemi í þónokkur ár og lítið gerst síðan upp úr aldarmótum. Uppúr 2008 var húsið hreinsað að innan og er eiginlega fokhelt bara.“

Róbert segir að nýtt hótel í bænum geti reynst Grindvíkingum vel. „Við fáum mikinn fjölda ferðamanna til okkar í gegnum Bláa lónið. Hér er slatti að gera í matsölustöðunum en okkur hefur vantað gistirými fyrir ferðamenn. Hótel á þessum stað yrði því frábær viðbót í ferðmannaiðnaðinn í bænum.“

Hér að neðan má heyra lagið Út og suður - þrumustuð með Ðe Lónlí Blú Bojs, þar sem fjallað er um böllin í Festi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×